Aðstoð

Hafa skal í huga, að tilkynna ber grun um misnotkun og að sá sem tilkynnir þarf ekki og má ekki hefja sjálfstæða rannsókn eða aðrar aðgerðir vegna málsins. Leitið til 112, 1717 og Barnarverndarstofu

Tilkynningarskylda gagnvart barnarverndarnefndum.
Samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 ber hverjum þeim sem hefur ástæðu til að ætla að barn búi við ofbeldi eða áreitni skylda til að tilkynna það barnaverndarnefnd.  Í 17 gr. sömu laga er sérstök áhersla lögð á tilkynningarskyldu þeirra sem starfa með börnum.  Nánari upplýsingar um tilkynningaskyldu og íslensk lög er að finna á www.bvs.is undir: lög og reglugerðir.

Hafa skal í huga, að tilkynna ber grun um misnotkun og að sá sem tilkynnir þarf ekki og má ekki hefja sjálfstæða rannsókn eða aðrar aðgerðir vegna málsins.

Ef um börn undir lögaldri er að ræða, ber að tilkynna það til barnaverndarnefnda.  Er þá fyrst og fremst leitað til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr.  Barnaverndarnefndir starfa í öllum bæjarfélögum.  Nánari upplýsingar um þær má  finna á heimasíðu Barnaverndarstofu, www.bvs.is  Þar eru einnig upplýsingar um hvernig beri að bregðast við, ef grunur leikur á að brotið hafið verið á barni.  Barnaverndarnefndir hafa yfir að ráða sérhæfðu starfsfólki sem tekur við tilkynningum og gerir viðeigandi ráðstafanir í framhaldi af því.

Ég skora á þig ef þú vinnur með eða berð ábyrgð á barni sem þig grunar að sæti ofbeldi að tikynna það.  Ef þú ert ekki viss, hringdu í Barnahús 530-2500.  Þar getur þú talað við einstaklinga sem vinna með börn sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og geta aðstoðað þig við að greina merkin.

Hvað  gera barnaverndarnefndir þegar tilkynning berst um að barn hafi mögulega orðið fyrir kynferðisofbeldi?  (Sjá svar undir spurt og svarað)

Neyðarlínan 112 – opin allan sólarhringinn – alla daga ársins.
Símanúmerið 112 veitir aðgang að öllum barnaverndarnefndum landsins.  Þetta er gert til að auðvelda börnunum sjálfum auk allra annara að koma upplýsingum til barnaverndarnefnda.  Þetta auðveldar börnum og aðstandendum þeirra að fá  nauðsynlega aðstoð.  Öll samskipti fara fram í fullum trúnaði.

Hlutverk neyðarvarða 112 er að taka við tilkynningum um barnaverndarmál og koma upplýsingum um þau til barnaverndarnefnda í samræmi við umboð og verklag sem hver nefnd hefur gefið Neyðarlínunni 112.  Hafa ber í huga að hægt er að hringja og óska eftir aðstoð þó ekki sé fyrir hendi fullvissa um að brotið hafi verið á barni.  Þú ert kannski sá eini/eina sem talar fyrir hönd barnsins. Hringdu þótt þú sért í vafa.

Aðrar stofnanir og félagsamtök sem geta aðstoðað börn sem hafa verið misnotuð kynferðislega.

Hjálparsími Rauða krossins, 1717 – gjaldfrjáls sími – opinn 24 tíma á dag.
Hjálparsími Rauða krossins, 1717, er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð vegna depurðar, kvíða, þunglyndis, eða sjálfsvígshugsana. Tilgangurinn með Hjálparsíma Rauða krossins er að vera til staðar fyrir þá sem hafa það á tilfinningunni að þeir séu komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.

Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi sætt kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.  Barnaverndarnefndir bera ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss. Börn og forráðamenn þeirra geta með tilvísun barnaverndarnefnda fengið alla þjónustu á einum stað sér að kostnaðarlausu. Sæti mál lögreglurannsókn fer staðsetning skýrslutöku eftir ákvörðun dómara en barnaverndarnefndir geta óskað eftir annarri þjónustu Barnahúss. Barnaverndarnefndir geta leitað til Barnahúss vegna gruns um annars konar ofbeldi gegn börnum.   Meiri upplýsingar um þjónustu barnahúss er að finna á www.barnahus.is eða í síma 530-2500.

Hér er einnig hægt að kynna sér samstarf Barnahús og barnverndarnefnda – Leiðbeiningar sem gefnar eru barnaverndarnefndum þegar málum hefur verið vísað til Barnahúss.  Barnahús – leiðbeiningar

Ef þú ert að leita hjálpar eftir að hafa lifað af kynferðisofbeldi sem barn þá bendum við á stuðningshópasíðuna hér til vinstri.  Þar bendum við á Stígamót www.stigamot.is og ráðgjafa.  Við hvetjum þig til þess að stíga það stóra skref til að treysta einhverjum fyrir því að segja frá ofbeldinu.  Þú ert ekki ein/n og þarft ekki að bera skömmina lengur.  Þú losnar við skömmina með því að tala um það, en það tekur tíma.  Þú mátt líka senda á okkur og spyrja ráða.  Við munum leiðbeina þér eins og við getum með stuðningi frá samstarfsaðilum okkar.  blattafram@blattafram.is

Heimasíða Félagsþjónustunnar í Reykjavík bendir á marga góða aðila sem hjálpa einstaklingum í vanda og fjölskyldum þeirra.

Úrræði fyrir gerendur (kynferðis afbrotamenn/konur)
Anna Kristín Newton Sálfræðingur Sími 894 0091  eða annan@tmd.is

Aðstoð til geranda felst í grófum dráttum að sálfræðingur vinnur með honum/henni og byrjar á því að kortleggja vanda þeirra. Farið er í gegnum ákveðna þætti svo sem: heimilislíf, skólaganga, brotin sem voru framin, þroskasögu, hvatvísi, reiði, kynferðisleg vitneskja sem og viðhorf og áhuga á kynlífi, samkennd, sem og aðra þætti sem sýnt hefur verið fram á að geta haft áhrif á framvindu kynferðisofbeldis. Þaðan er svo hægt að skipuleggja meðferðina sem felst þá í því að hafa áhrif á þá þætti sem eru í ólagi (draga þá úr áhættuþáttum) og tengjast kynferðisofbeldi.  Einstaklingi í meðferð eru kenndar aðferðir við að þekkja sína eigin áhættuþætti og kenndar leiðir til að bregðast við þeim með það markmið að koma í veg fyrir að kynferðisofbeldi eigi sér aftur stað.

Hvað tekur við þegar einhver hefur samband varðandi einstakling sem hefur brotið á aðra kynferðislega er það fyrst og fremst að meta umfang brotsins sem og tryggja það að gerandi og þolanda/þolendur eru ekki í aðstöðu þar sem möguleikar eru á því að kynferðisofbeldi haldi áfram.  Stundum getur verið nauðsynlegt að grípa til þeirrar ráðstöfunnar að fjarlægja gerandan af heimili sínu t.d. vegna brot á systkini.

Viljum við minna á mikilvægi þess að leita sér aðstoðar, fyrr heldur en seinna.  Sama hversu erfitt það kann að vera að leita aðstoðar fyrir sjálft sig eða jafnvel barn sitt sem hefur gerst brotleg/ur við önnur börn kynferðislega er það enn erfiðara ef ekki er tekið á vandanum.  Vandinn og skömmin sem honum fylgir getur haldið áfram að þróast og er einstaklingurinn þá í meiri hættu á að skaða aðra sem og sjálfan sig, getur náttúrulega endað jafnvel fyrir unglinginn/barnið með fangelsisvist og samfélagslegri útskúfun.

Hægt er að fá mögulega aðstoð við greiðslu á fagaðstoð hjá ráðgjöfum í gegnum félagsþjónustuna, en er það metið hverju sinni.

Ef þú ert í vafa…hringdu eða sendu tölvupóst…þú þarft ekki að segja til nafns ef þú vilt bara leita eftir upplýsingum.  Þú getur fengið hjálp!!