Afleiðingar

Afleiðingar kynferðisofbeldis

Kynferðisofbeldi er áfall og getur haft víðtækar afleiðingar fyrir þann sem fyrir ofbeldinu verður.

Kynferðisofbeldi í æsku getur haft alvarlegar og langvarandi líkamlegar, sálfræðilegar og félagslegar afleiðingar. Þær geta verið mjög mismunandi og eftir aldri þess sem fyrir kynferðisofbeldinu verður, viðbrögð einstaklingsins við áfallinu og þeim stuðningi sem hann fær eftir áfallið.

Kynferðisofbeldi í æsku er ógn við persónuleg mörk og tilveru barna og geta viðbrögð barna einkennst af miklum ótta og hjálparleysi. Að geta sagt einhverjum frá og fengið stuðning er því eitt af lykilatriðum í að geta lifað slíkt ofbeldi af. Meirihluti barna (90%) segja aldrei öðrum frá á meðan þau eru enn börn, að þau hafi verið beitt kynferðisofbeldi.

Depurð – Kvíði – Skömm – Léleg sjálfsmynd – Sektarkennd – Ótti – Reiði – Einangrun – Erfiðleikar í kynlífi – Erfið tengslamyndun við maka og vini.

 

Börn sem eru beitt kynferðisofbeldi geta:

 • Efast um að þau séu þess virði að vera elskuð
 • Verið óttaslegin, jafnvel þegar er “öruggt”
 • Óttast öll sambönd, jafnvel vináttu
 • Hunsað eigið öryggi í hættulegum aðstæðum
 • Fundist þau svikin af eigin líkama
 • Fundið fyrir óbærilegri skömm

Börn sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi og þegja, eða segja frá en er ekki trúa, eru líklegri en aðrir til að þurfa að kljást við ýmis vandamál oft langt fram á fullorðinsár.

 • Áfengis- og vímuefnamisnotkun
 • Geðræn vandamál
 • Ótímabærar þunganir
 • Glæpir
 • Lauslæti, vændi
 • Sjálfseyðandi hegðun

 

Afleiðingar ofbeldis hefur verið rannsakað töluvert erlendis en áhugi á slíkum rannsóknum hefur aukist undanfarin áratug hér á landi.

 • Um þrisvar sinnum líklegra er að börn á Íslandi sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi telji framtíð sína vera vonlausa.
 • Á Íslandi er 56% túlkna og 27% drengja sem meta andlega heilsu sína slæma samanborið við 21% stúlkna og 13% drengja sem hafa ekki orðið fyrir slíku áfalli.
 • Tæplega 70% stúlkna og 25% drengja á Íslandi sem orðið hafa fyrir kynferðisofbeldi eru oft einmanna samanborið við 26% stúlkna og 11% drengja sem ekki hafa orðið fyrir slíku ofbeldi.
 • Erlendar rannsóknir hafa sýnt að um 70-80% þeirra sem hafa verið beitt kynferðisofbeldi eiga við áfengis-og vímuefnavandamál að stríða.
 • Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku eru líklegri en karlar til að upplifa þunglyndi og kvíða, en einnig óútskýrð líkamleg einkenni og félagslega einangrun.
 • Karlar sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi í æsku eru líklegri en konur til að upplifa mikla reiði, árásargirni og andfélagslegt og glæpsamlegt atferli ásamt öðrum hegðunarvandamálum.
 • Konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi eru líklegri en aðrar konur til að glíma við átraskanir.
 • Stafrænt kynferðisofbeldi hefur sömu afleiðingar og annað kynferðisofbeldifyrir þann sem fyrir ofbeldinu verður.

Hér að neðan má lesa rannsóknir um afleiðingar kynferðisofbeldis: