Barnavernd

Hvað gerir barnavernd þegar tilkynning berst um að barn hafi mögulega orðið fyrir kynferðisofbeldi?

Hafa ber í huga að börn búa við margvíslegar aðstæður, fjölskyldur þeirra geta verið margvíslegar og hið félagslega net ólíkt. Það er því aldrei hægt að gefa neina eina mynd af því hvernig barnaverndarnefndir vinna að málefnum þeirra, ætíð þarf að taka mið að hinu einstaka barni og aðstæðum þess. Barnaverndarlögin gefa þó ákveðinn ramma af hlutverki og skyldum barnaverndarnefnda og starfsfólki þeirra.

Eitt aðalmarkmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður, eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð.  Í því felst m.a. að tryggja öryggi barnanna og umönnun þeirra.

Þegar barnaverndarnefnd eða starfsmenn hennar fá tilkynningu um að barn hafi mögulega orðið fyrir kynferðisofbeldi, þarf að skoða tilkynninguna og meta hvort þarna er um rökstuddan grun að ræða áður en tekin er ákvörðun um næstu skref. Á þessu stigi tala starfsmenn barnaverndarnefndar gjarnan aftur við þann sem tilkynnti, til að fá betri mynd af stöðu barnsins og eins er skoðað hvort einhverjar upplýsingar um barnið séu til hjá barnaverndarnefndinni.

Ákvörðun um að hefja könnun getur gerst samdægurs og þarf að framkvæma innan 7 daga.  Á þessum tíma er reynt að meta hvort barnið sé í hættu og hvort grípa þurfi til einhverja aðgerða strax, t.d. að taka barnið af heimilinu og finna því öruggan samastað.  Jafnframt þarf að athuga hvort barnið hafi einhverja í kringum sig sem það treystir og er fært um að tryggja öryggi þess.

Þegar grunur er um kynferðisofbeldi er í flestum tilvikum málum gjarnan vísað til Barnahúss, en starfsmenn þar eru sérhæfðir í að kanna þannig mál. Skoða þarf hvort málið sé tilkynnt lögreglu, og ef það er gert hefur lögreglan sjálfstæða rannsókn á málinu og talar við alla sem tengjast málinu fyrir utan barnið.  Lögreglan fer síðan fram á aðstoð dómara við skýrslutöku af barninu. Dómari ákveður hvar rannsóknarviðtal fer fram og hver ræðir við barnið.  Aðstaða Barnahúss og sérfræðikunnátta stendur öllum dómurum til boða.

Nokkur tími getur liðið frá því að grunur vaknar og þar til rannsóknarviðtal fer fram. Þetta er oft erfiður tími fyrir barnið og foreldrana. Mikilvægt er að barnið sé ekki spurt um tilvikin, þar sem of mikil umræða getur spillt fyrir rannsókn málsins. Barnaverndarnefnd á að geta veitt barninu og/eða foreldrunum stuðning þennan tíma, auk þess að útskýra hver næstu skref verða.

Þegar rannsóknarviðtali er lokið og könnun málsins þarf barnaverndarnefnd að skoða á hvern hátt hægt er að veita barninu og foreldrum þess stuðning. Oft á tíðum felst stuðningur við barnið í viðtölum við starfsmenn Barnahúss.

Barnaverndarnefndir sjá www.bvs.is