Brúðuleikhúsið

Ítarefni vegna líkamlegs ofbeldis  |  Ítarefni vegna kynferðis ofbeldis  |  Bréf til foreldra eftir sýninguna

Brúðuleikhúsið skólaárið 2013 – 2014

Árið 2012 var sett af stað verkefnið vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum á vegum innannríkis-, velferðar- og mennta og menningarmálaráðuneytis. Hluti af vakningarátakinu var að bjóða uppá forvarnarfræðslu til allra barna í 2. bekk grunnskóla. Brúðuleikhús Blátt áfram Krakkarnir í hverfinu var valið og stendur átakið til ársins 2015. Á meðan á því verkefni stendur, hefur vitundarvakningin umsjón með sýningum í skólum landsins. Vinsamlegast hafið samband viðfulltrúa vitundarvakningar ef óskað er eftir sýningum.

Brúðleikhúsið í sögulegu samhengi á Íslandi

Blátt áfram hefur frá stofnun verkefnisins lagt áherslu á að fræða fullorðið fólk um vernd barna.

Þegar Blátt áfram hóf starfsemi sína 2004 með forvarnarfræðslu og fyrirlestrum til kennara og foreldra, undir hatti UMFÍ, komu fjölmargar fyrirspurnir frá skólum um einhver verkfæri og leiðir til að hefja þessa viðkvæmu umræðu við börn.

Fyrir stofnun Blátt áfram var Svava Björnsdóttir, einn af stofnendum samtakanna, búsett í Bandaríkjunum. Sérkennari búsettur í Tennessee sagði henni frá brúðuleikhúsinu Krakkarnir í hverfinu (e. The Kids on the Block). Um er að ræða fræðsluleikhús fyrir börn sem notar brúðurnar til að fjalla um ýmis hagsmunamál barna m.a. kynferðislegt ofbeldi. Sérkennarinn hafði séð slíka sýningu og vissi af börnum sem höfðu sagt frá ofbeldi í kjölfar sýninga.

Svava brást við fyrirspurnum skólanna með því að hafa samband við The Kids on the Block og óska eftir formlegu leyfi til að nota og þýða efni sýningarinnar og staðfæra efnið til að nota í fræðslu um kynferðislegt og líkamlegt ofbeldi hér á landi.

Fljótlega eftir að leyfi barst frá The Kids on the Block sat Svava, þá verkefnastjóri Blátt áfram, fund með stjórn Velferðasjóðs barna til að útskýra brúðuleikhúsið, tilgang þess og umfang. Í framhaldi fékkst styrkur frá sjóðnum til að koma brúðuleikhúsinu á fót hér á landi.

Skömmu síðar fréttum við hjá Blátt áfram að brúðuleikhússtýrurnar Hallveig Thorlacius og Helga Arnalds hefðu sett sýninguna upp og sýnt á norrænu barnaverndarþingi sem var haldið í Reykjavík árið 1988. Það lá því beint við að leita til þeirra með uppsetningu sýningarinnar.

Brúðuleikhússýningar The Kids on the Block í Bandaríkjunum eru venjulega sýndar af sjálfboðaliðum sem fá þjálfun til þess á vegum Kids on the block. Í ljósi þeirrar reynslu sem Hallveig og Helga höfðu af uppsetningu sýningarinnar var hluti af styrknum nýttur til að greiða þeim fyrir að bjóða upp á sýningarnar á vegum Blátt áfram. Hluti af fjármagninu frá Velferðasjóði fór í að kosta þjálfun þeirra og einnig í að kaupa fylgihluti sem notaðar eru í brúðusýningunum.

Blátt áfram hefur í gegnum árin fengið styrki frá ráðuneytum, fyrirtækjum og Reykjavíkurborg til að koma sýningunum á framfæri. Hluti af árlegri söfnun félagsins hefur einnig kostað sýningar til skólabarna.

Mikil vinna var lögð í undirbúning verkefnisins. Í upphafi þess hafði Svava samband við og fundaði með sálfræðingum og barnavernd Reykjavíkurborgar. Samþykkt var að þjónustumiðstöðvar yrðu látnar vita þegar sýningar væru haldnar í hverfisskólum og að ráðgjafi frá félagsþjónustu yrði að vera viðstaddur sýningarnar.

Árið 2005 var haldin prufusýninga í Austurbæjarskóla þar sem forvarsmenn félagsþjónustunnar fengu tækifæri til að koma og sjá sýninguna og viðbrögð barnanna við henni. Í framhaldi óskaði Blátt áfram eftir umsögnum skólastjórnenda. Nokkrir sérfræðingar hafa sent okkur umsagnir og lýst ánægju sinni með sýninga Krakkarnir í hverfinu og er hægt að nálgast þær inná vefsíðu félagsins blattafram.is.

Fyrsta formlega sýningin var haldin í Breiðholtsskóla 17. október 2005 þar sem embættismönnum og öðrum sem hafa með barnaverndarmál að gera var boðið að sjá sýninguna. Þar á meðal voru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu og Ingibjörg Rafnar umboðsmaður barna ásamt fleiri skólastjórnendum og fjölmiðlafólki.

Brúðuleikhúsið Krakkarnir í hverfinu er verkefni sem stendur ekki eitt og óstutt heldur er það hluti af forvarnarfræðslu til fullorðinna. Starfsfólk sem fær sýningar í skólum þarf að vera búið að fá fræðslu eða námskeið til að undirbúa kennara fyrir að bregðast rétt við og taka á þeim málum sem upp koma í kjölfar sýninganna. Skólarnir sem óska eftir sýningum bera því mikla ábyrgð og þurfa að undirbúa og þjálfa starfsfólk í réttum viðbrögðum svo hægt sé að hjálpa þeim börnum sem koma fram og segja frá.

Frá árinu 2005 hafa u.þ.b 10 þúsund börn séð sýninguna Krakkarnir í hverfinu.

Umsagnir um sýninguna:

“Krakkarnir í hverfinu” er að mínu mati mjög vel heppnuð brúðuleiksýning til þess að vekja börn á grunnskólaaldri til umhugsunar um ofbeldi gegn börnum. Mjög vel hefur tekist til með þýðingu textans og stjórnendur brúðanna hafa sett sig mjög vel inn í hlutverk þeirra, hafa góðan skilning á efninu og hlutverkunum og eiga einstaklega auðvelt með að svara spurningum barnanna og ná til þeirra.
Ég hef þá trú að börn, sem orðið hafa fyrir líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, eigi auðvelt með að tengjast efni leikþáttanna, þau fái svör við mörgum spurningum sem á þau leita og að sýningin muni auðvelda þeim að leita sér aðstoðar. Þá er ég einnig viss um að börn, sem ekki þekkja ofbeldi af eigin raun, eigi einnig auðvelt með að setja sig inn í efnið, skilji ofbeldi betur til að bregðast við því og að sýningin auðveldi þeim einnig að hvetja vini sína, sem verða fyrir ofbeldi, til að bregðast við og leita sér aðstoðar.”
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

“Leiksýningin var að okkar mati vekjandi og ótrúlegt hvað nemendur sýndu mikil viðbrögð og voru áhugasamir og einlægir í spurningum sínum.
Viðkvæmt efni var sett í þann búning að það særir engan en vekur til umhugsunar og styrkir börn í að geta leitað aðstoðar hjá einhverjum sem þau treysta.”
Anna Guðmundsdóttir og Karl Frímannsson, Hrafnagilsskóla

“ Ég var áhorfandi á sýningu fyrir börn í 2. bekk Kársnesskóla í dag og varð vitni að fræðandi umfjöllun um heimilisofbeldi og kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum. Aðferð Hallveigar og Helgu til að nálgast fræðsluna um þessi mikilvægu málefni er snjöll og hvetjandi til umræðu meðal krakkanna. Það sást greinilega í svip og viðbrögðum barnanna sem voru á sýningunni í dag rétt eins og ég upplifði í sama skóla fyrir réttu ári.”
Hugo Þórisson sálfræðingur.

NÁNARI UPPLÝSINGAR VEITA :
Hallveig hallveig@xx.is S: 581 3695/ 865 5255 eða Helga helga.arnalds@gmail.com s:895 3020

Umsagnir um brúðuleikhúsið:

logo_Innanrikis