Ítarefni vegna kynferðis ofbeldi

Það sem kennarar og aðrir fullorðnir þurfa að vita

Um Kynferðislega misnotkun

Þegar barn er þvingað, lokkað, gabbað eða neytt til að taka þátt í kynferðislegu athæfi með eldri einstakling þá er það kallað kynferðisleg misnotkun. Misnotkun getur verið allt frá því að gera kynferðislega opinskátt efni aðgengilegt börnum til þess að sýna börnum kynfæri sín, kyssa það eða snerta á kynferðislegan hátt. Frá því að börn eru mjög ung ætti að brýna fyrir þeim að þau eigi líkama sinn. Ef einhver; hvort heldur sem er ókunnugur aðili eða einhver sem barnið þekkir, reynir að snerta “einka-staði” líkama barnsins (þá staði sem sundföt myndu alla jafna hylja) eða reynir að láta barnið snerta þessa staði á líkama annarrar manneskju; þá ætti barnið að hrópa “nei” eða “ekki gera þetta” eins hátt og það getur, koma sér í burtu frá þeim aðila og segja einhverjum fullorðnum einstaklingi, sem barnið treystir, frá atvikinu eins fljótt og auðið er. Til að fyrirbyggja kynferðislega misnotkun á börnum er áríðandi að fara dýpra í málið en hið hefðbundna “góð snerting/vond snerting” og “ekki tala við ókunnuga.” Sumar kannanir benda til að einungis 10 – 30% af barnaníðingum séu ókunnugir; einhverjir sem fórnarlömb þeirra kannast ekki við. Þetta þýðir að 70 – 90% af þeim börnum sem misnotuð eru kynferðislega eru misnotuð af kunningjum sínum eða skyldmennum. Það er engan veginn nóg að kenna börnum að forðast “gamla, ljóta karla” þar sem gerendur í kynferðisafbrotamálum eru ekki allir fullorðnir. Í sumum kynferðismálum eru brotamennirnir unglingar sem misnota önnur börn.

Barn sem sætt hefur kynferðislegu ofbeldi kann að eiga afar erfitt með að segja frá reynslu sinni. Hinir fullorðnu kunna að greina einhverjar breytingar sem verða á hegðun barnsins – s.s. grátur, geðsveiflur, svefntruflanir, óvenju barnaleg hegðun, árásarhneigð eða óviðeigandi kynferðisleg hegðun. Líkamleg einkenni kunna einnig að vera til staðar, s.s. óþægindi í einka líkamshlutum. Eitt ofantalinna einkenna þarf ekki nauðsynlega að þýða að barnið hafi verið misnotað en þegar nokkur einkenni fara saman er áríðandi að líta ekki framhjá þeim.

Um frásagnir af misnotkun

Þegar barn segir frá misnotkun þá kann hann eða hún að eiga afar erfitt með að koma sér að efninu. Ekki er óalgengt að börn fari marga hringi í kringum málefnið í stað þess að koma fram með fullmótaða, skýra og nákvæma frásögn af reynslu sinni. Það er gríðarlega áríðandi að barninu finnist það öruggt og að því sé leyft að tala um það sem gerðist með sínum eigin orðum og á þeim hraða sem það treystir sér til. Fullorðnir ættu aldrei að spyrja barn leiðandi spurninga á borð við: “Snerti hann þína einka-staði?” Þess í stað verður fullorðni einstaklingurinn sem barnið treystir að halda ró sinni og sannfæra barnið um að það sé mjög gott að tala um það sem hefur gerst; það beri vott um heilmikið hugrekki. Fullorðni einstaklingurinn getur sagt: “Ég er feginn að þú skulir segja mér frá þessu. Er eitthvað fleira sem þú getur sagt mér um þetta?” Með því að halda ró sinni og spyrja opinna spurninga leggur viðkomandi lögregluyfirvöldum lið ef til rannsóknar málsins kemur.

Fullorðnir sem vinna með börnum á faglegum nótum verða að þekkja þær kröfur sem lögin og vinnuveitandi þeirra gerir þegar kemur að frásögnum um kynferðislega misnotkun. Í mörgum tilfellum ber þeim sem vinna með börnum lagaleg skylda til að tilkynna frásögnina til viðeigandi yfirvalda; sem þýðir að sem sá fullorðni aðili sem fékk upplýsingarnar frá barninu – ber þér skylda til að tilkynna það til félagsmálayfirvalda eða barnaverndarnefndar. Samkvæmt 16 og 17 gr barnaverndarlaga á íslandi.

Um ókunnuga

Fullorðnir ættu að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að kenna börnum að fara að öllu með gát – án þess þó að kenna þeim að vera hrædd. “Ekki tala við ókunnuga” er ekki sú leið sem er vænlegust til árangurs þegar persónulegt öryggi barns er annars vegar. Meirihluti barna sem eru misnotuð eru misnotuð af einhverjum sem þau kannast við og margir “ókunnugir” geta verið kunnugir vegna þess eins að þeir búa rétt hjá barninu og börnin hafa oft séð þau á ferli í hverfinu. Beinið athyglinni frekar að þeirr hegðun sem fólk, sem misnotar börn, kann að sýna og hvað barn ætti að gera í mismunandi kringumstæðum – sem og hvern hann/hún ætti helst að nálgast til að biðja um hjálp.

Börn ættu að forðast hvern þann sem nálgast barn sem er eitt síns liðs, gerir tilraun til að króa barn af eða ná því einu einhvers staðar. Það sama gildir um fullorðna einstaklinga og eldri krakka sem biðja börn um að hjálpa sér – þessa aðila eiga börn að forðast. Börn ættu ALDREI að hjálpa fullorðinni manneskju sem þau þekkja ekki. Það þarf að leiðbeina börnum; kenna þeim hvernig þau geta haldið sig í öruggri fjarlægð frá ókunnugum sem einhverra hluta vegna nálgast þau. Öll börn verða að læra að skilja að hvenær sem einhver lætur þeim líða sérkennilega; lætur þau verða vandræðaleg, líða illa eða verða hrædd – þá eiga þau að koma sér í burtu og umsvifalaust segja einhverjum fullorðnum aðila sem þau treysta frá atvikinu.

Um persónulegt öryggi

Lögregluyfirvöld í mörgum löndum halda til haga gögnum um dæmda kynferðisafbrotamenn. Aðgangur að þessum upplýsingum getur reynst foreldrum gagnlegur við að vernda börn þeirra fyrir hugsanlegum barnaníðingum. Börn ættu að leggja á minnið nöf foreldra sinna, heimilisfang, símanúmer og kunna að hafa samband við neyðarhjálp á borð við lögreglu og slökkvilið. Það er afar brýnt að börn skilji að það kunni að vera nauðsynlegt að nota þessar upplýsingar í neyðartilvikum – en jafnframt að þau eigi annars alla jafna ekki að deila þessum upplýsingum með öðrum nema með vitneskju og leyfi foreldris.

Börn sem hlotið hafa grundvallar kynlífsfræðslu – sem tekur mið af aldri þeirra – kunna að vera færari um að greina og þekkja óviðeigandi kynferðishegðun fullorðins einstaklings eða eldra barns – og þar með dregið úr líkum á að verða fyrir kynferðislegri misnotkun. Að leyfa barni að sýna blíðhót út frá sínum eigin forsendum (í stað þess að vera sagt: “Farðu nú og knúsaðu Gunnu frænku”) gefur barninu færi á að æfa sig í að treysta eigin innsæi þegar kemur að því að greina og velja hvaða líkamlega snerting er viðeigandi og í samræmi við þeirra eigin vilja.

Fullorðnir einstaklingar í lífi barns ættu að skuldbinda sig til að eiga gæðasamverustundir með barninu og leggja sig fram um að hafa öll samskipti heiðarleg og opin. Börn sem telja sig ekki geta talað við fullorðna fólkið í lífi sínu – og þau sem ekki hafa sterkar fullorðnar fyrirmyndir – kunna að vera auðveldari “bráðir” fyrir þá sem misnota börn kynferðislega.

ÞAÐ SEM BÖRN ÆTTU AÐ VITA UM KYNFERÐISLEGA MISNOTKUN

Þó svo flestir fullorðnir myndu aldrei gera neitt til að skaða eða meiða barn – þá getur það komið fyrir að fullorðinn einstaklingur eða eldra barn reyni að gera hluti eins og að kyssa barn á munninn eða snerta það á þann hátt að barninu líði illa; finnist það einhvern veginn óþægilegt. Það er mjög mikilvægt að muna að ef barn er beitt einhvers konar ofbeldi, þar með talið kynferðislegri misnotkun, þá er það aldrei barninu að kenna.

Börn geta gert ýmislegt til að tryggja öryggi sitt. Eitt af því sem barn eða unglingur getur gert er að hlusta á og treysta eigin innsæi og tilfinningum. Ef einhver reynir einhvern tíman að fá barn til að gera eitthvað sem lætur honum eða henni líða einkennilega eða illa – þá ætti barnið að forða sér í burtu eins fljótt og hægt er og segja einhverjum fullorðnum aðila sem það treystir frá því – eins og skot.

Ókunnugir

Allir sem þú og fjölskylda þín þekkir ekki eru ókunnugir. Kannski kannast þú við suma ókunnuga – af því að þeir búa í hverfinu þínu eða þú hefur oft séð þá í kringum skólann þinn eða einhvern annan stað sem þú ferð oft á. En þangað til að þú og foreldrar þínir kynnist einhverjum vel – þá er manneskjan samt ókunnug. Það eru ekki allir ókunnugir hættulegir. Flestir þeirra eru bara eins og annað fólk sem þú þekkir. Þeir eiga sennilega líka fjölskyldu og ástvini sem þeim þykir óskaplega vænt um og trúlega er þeirra daglega líf bara ósköp svipað og líf þitt og þinnar fjölskyldu. Þú getur ekki alltaf forðast ókunnuga – fólk sem þú þekkir ekki. Trúlega talaðir þú við einhvern ókunnugan síðast þegar þú fórst í búðina með mömmu þinni eða pabba. Það var í lagi af því að foreldri þitt var með þér. Þegar þú ert ekki með foreldrum þínum eða einhverjum öðrum fullorðnum sem ber ábyrgð á þér – þá er það mjög mikilvægt að vita hvað ber að varast og hvers konar fólk þú átt að nálgast ef þig þarft einhverja hjálp.

Þar sem þú sérð það ekki á útliti ókunnugra hvort hann eða hún sé hættulegur – geti hugsanlega gert eitthvað slæmt – þá skiptir ofboðslega miklu máli að þú fylgist vel með öðrum hlutum – eins og t.d. hvernig þessi ókunnugi hagar sér og hvort hann eða hún reynir að ná þér einum; vera með þér í einrúmi. Barn ætti ALDREI að hjálpa fullorðnum einstaklingi sem hann/hún þekkir ekki. Ef fullorðinn einstaklingur þarf á hjálp að halda – þá ætti sá fullorðni einstaklingur að finna einhvern annan fullorðinn til að hjálpa sér.Ef einhver ókunnugur býður þér eitthvað, eins og gjafir, sælgæti, peninga eða eitthvað annað – þá gæti það verið gildra og þú verður að koma þér burt frá þeirri manneskju umsvifalaust. Ef einhver sem þú þekkir ekki nálgast þig – einhverra hluta vegna – skaltu færa þig frá honum og vera alltaf í meira en “handleggjafjarlægð” frá honum (það langt frá honum að hann geti ekki teygt sig í þig) – og haltu þeirri fjarlægð – þannig að ef hann færir sig nær … færir þú þig fjær. Að tryggja eigin öryggi þýðir líka að þú verður að treysta tilfinningum þínum og innsæi. Ef þú hefur á tilfinningunni að eitthvað sé ekki rétt eða í lagi … eða ef þú heyrir “rödd innra með þér” segja þér að fara varlega … hlustaðu þá á hana og vertu á varðbergi. Hvernær sem einhver lætur þér líða einkennilega – þú verður óöruggur eða hræddur – komdu þér þá í burtu og segðu einhverjum fullorðnum aðila sem þú treystir umsvifalaust frá því.

Snerting

Það eru til margar mismunandi tegundir af snertingu. Þú getur til dæmis heilsað einhverjum með handabandi. Þú gætir fengið klapp á bakið, öxlina eða kollinn þegar þú hefur staðið þig vel í einhverju. Einhver sem þú þekkir mjög vel gæti faðmað þig til að sýna þér að honum þykir vænt um þig. Foreldrar þínir – eða afi og amma – gætu knúsað þig og kysst og sagt þér að þau elskuðu þig út af lífinu. Fólkið sem þykir ofboðslega vænt um þig snertir þig á þann hátt að það vekur hjá þér öryggiskennd og lætur þér líða vel.

Sum snerting getur látið þér líða illa; vakið með þér ónota- eða óöryggiskennd og jafnvel gert þig hræddan. Það er þess vegna sem það er áríðandi að muna að þú átt þinn líkama og þú hefur allan rétt á að segja “nei” við hvers konar óvelkominni snertingu. Kannski finnst vini þínum flott að heilsa þér með því að kýla þig fast í handlegginn svo þú meiðir þig um leið og hann segir: “Blessuð” eða “Blessaður”. Þú hefur fullan rétt á að segja honum eða henni að hætta þessu. Önnur tegund óþægilegrar snertingar er þegar einhver reynir að snerta einka-staði líkama þíns – staðina sem eru huldir sundfötum þegar þú ferð í sund. Þannig snerting gæti gert þig ruglaðan í ríminu eða jafnvel skelfingu lostinn.

Það er aldrei í lagi fyrir einhvern annan að snerta þína einkastaði. Það geta komið upp tilvik þar sem læknir verður að skoða þessa staði, en þá myndi mamma þín, pabbi þinn eða sá fullorðni aðili sem sér um þig vera hjá þér á læknastofunni. Enginn annar hefur neina ástæðu til að snerta einkastaðina á líkama þínum. Ef einhver, hvort heldur sem hann er ókunnugur eða einhver sem þú þekkir, reynir að snerta þessa staði á líkama þínum eða reynir að láta þig snreta þessa staði á líkama þeirra – þá ættir þú að öskra “Nei” eða “Ekki gera þetta”, eins hátt og þú getur – og forða þér síðan frá þessari manneskju og segja einhverjum fullorðnum sem þú treystir strax frá þessu atviki!

Eigið öryggi

Að tryggja þitt eigið öryggi er mikil ábyrgð. Þú getur lagt þitt af mörkum við að gæta öryggis þíns með því að leggja á minnið nöfn foreldra þinna, heimilisfang þitt og símanúmer (helst líka gsm-númer foreldra þinna). Þú ættir líka að kunna að hringja sjálfur og hvernig þú getur sjálfur haft samband við þá sem veita neyðaraðstoð eins og t.d. lögreglu og slökkvilið.

Þegar talað er um að gæta eigin öryggis er líka átt við að maður eigi ekki að tala við ókunnuga án þess að einhver nákominn fullorðinn aðili sé viðstaddur – og að maður eigi að halda sig í öruggri fjarlægð frá ökutækjum og fólki sem maður þekkir ekki. Þú ættir aldrei að gefa neinum sem þú þekkir ekki persónulegar upplýsingar um þig og þína – eins og að segja einhverjum hvar þú býrð, í hvaða skóla þú ert, hvað aðrir fjölskyldumeðlimir heita, hvaða lykilorð þú notar, hvað vinir þínir heita eða jafnvel gæludýrin þín. Nafnið þitt ætti ekki að vera á fötunum þínum eða hlutum sem þú ert með á þér. Ef þú notar tölvu til að senda tölvupóst, spjalla við vini þína eða senda skilaboð – þá ættirðu ALDREI að gefa upp neinar persónulegar upplýsingar í þess konar tölvusamskiptum. Mundu líka að allir sem þú “kynnist” í gegnum tölvuna eru ókunnugir … alveg þangað til þú og fjölskylda þín hafið kynnst þeim í eigin persónu.

Það er mikilvægt að börn skemmti sér; hafi gaman af að vera til – en á meðan þú ert að skemmta þér ættirðu samt að gæta fyllsta öryggis. Gakktu úr skugga um að foreldri eða sá fullorðni aðili sem sér um þig viti hvar þú ert og hvenær þú ætlir að koma heim. Vertu ekki einn á ferð – heldur hafðu vin þinn (eða nokkra vini) með þér þegar þú ert úti að ganga, leika þér eða slæpast. Ef þú verður viðskila við foreldri eða vini á opinberum stað eins og t.d. í verslunarmiðstöð eða almenningsgarði – leitaðu þá að “upplýsingaborði” – eða snúðu þér til starfsmanns eða móður með börn – og biddu þau um að aðstoða þig. Að fara einn að leita í verslun eða á bílastæði getur stofnað þér í hættu. En umfram allt; ef þér líður einkennilega eða færð einhverja skrýtna tilfinningu gagnvart einhverri manneskju, aðstæðum eða einhverju öðru – segðu þá einhverjum fullorðnum aðila sem þú treystir frá því eins og skot.

Kynferðisleg misnotkun

Þegar einhver reynir að fá krakka til að gera hluti eins og að “kyssast fullorðins-kossa á munninn”, snertir einkastaðina á líkama barnsins eða lætur barnið snerta einkastaðina á líkama einhvers annars – þá er það kallað kynferðisleg misnotkun. Sá sem gerir svona hluti við barn getur verið fullorðinn eða annar krakki. Hann gæti verið ókunnugur eða einhver sem barnið þekkir og jafnvel býr með. Stundum reynir manneskjan kannski að láta barnið fá samviskubit og sektarkennd út af þessu – eins og misnotkunin sé barninu að kenna. Manneskjan getur jafnvel sagt við barnið: “Þú lést mig gera þetta.” En – alveg sama hvað manneskjan kann að segja – misnotkun er aldrei barninu að kenna. Sumar tegundir kynferðislegrar misnotkunar fela ekki neina raunverulega snertingu í sér. Þess í stað er barn kannski neytt til að horfa á eitthvað kynferðislegt; eins og t.d. ljósmyndir, kvikmyndir eða líkamlegar athafnir. Stundum segir manneskjan barninu kannski að það sem hafi gerst á milli þéirra sé þeirra leyndarmál og enginn annar megi vita um það. En þetta er ekki gott leyndarmál. Gott leyndarmál er leyndarmál sem gleður einhvern þegar því er ljóstrað upp – eins og t.d. þegar vinur sem þú hefur ekki séð mjög lengi kemur óvænt í heimsókn – eða þegar einhverjum er komið á óvart með óvæntri afmælisveislu. Ef einhver – fullorðinn einstaklingur eða annar krakki – biður þig um að þegja yfir leyndarmáli sem vekur ónotakennd hjá þér, lætur þér líða illa, gerir þig hræddan eða þér finnst bara ekki rétt – þá er mjög líklega um vont eða hættulegt leyndarmál að ræða sem á ekki að þegja yfir. Að segja einhverjum fullorðnum sem maður treystir frá vondu eða hættulegu leyndarmáli er það snjallasta sem barn getur gert.

Barn kann að eiga erfitt með að skýra fullorðnum frá misnotkun vegna þess að það er erfitt, snúið og ógnvekjandi að tala um það. Þegar fullorðnum er sagt frá misnotkuninni þá geta þeir ruglast gjörsamlega í ríminu – og kannski ekki skilið til fulls hvað gerðist … eða þeir hreinlega vilja ekki trúa að þetta geti verið satt. Flestir fullorðnir munu reyna að hjálpa barni sem hefur verið misnotað en ef fullorðni einstaklingurinn kemur ekki til hjálpar strax, einhverra hluta vegna – þá verður barnið að finna enhvern annan fullorðinn og halda áfram að segja frá þessu þar til einhver gerir eitthvað til að tryggja öryggi og velferð barnsins.

Eftir leiksýninguna — Hvað nú?

Bekkjar- og hópumræður

UMRÆÐUEFNI

Notið einhverjar eða allar eftirfarandi spurninga til að hvetja til og örva umræður um kynferðislega misnotkun og persónulegt öryggi í litlum hópum barna.

“Okkar á milli”

1.Af hverju finnst Jóhönnu “allt þetta dót með að snerta og kyssa og svoleiðis” versta tegund ofbeldis gegn börnum?

2.Hvers vegna veit Jóhanna svona mikið um misnotkun og ofbeldi gegn börnum?

3.Jóhanna var 10 ára þegar hún var misnotuð. Hversu gömul er hún núna?

4.Af hverju heldur þú að það kunni að vera auðveldara fyrir Jóhönnu að tala um misnotkunina núna – fjórum árum síðar?

5.Stefán er undrandi þegar hann kemst að því hverjum Jóhanna kaus að segja frá. Hverjum sagði Jóhanna frá og af hverju var Stefán svona hissa? Hvers vegna valdi Jóhanna Sverri, pabba hennar Dagnýjar?

6.Jóhanna er með ákveðna hugmynd um hvernig hún geti útskýrt hvernig hún talaði við Sverri. Hvernig vill hún úskýra þetta fyrir Stefáni? Hvern leikur Jóhanna? Hvern leikur Stefán?

7.Fyrst þegar Jóhanna byrjaði að tala við Sverri, pabba hennar Dagnýjar – þá sagði hún honum frá annarri lítilli stelpu. Hvaða litla stelpa er það og af hverju heldurðu að Jóhanna hafi byrjað á að tala um hana? Heldur þú að það hafi verið góð hugmynd hjá Jóhönnu að byrja með því að tala um stelpuna á myndbandsspólunni? Af hverju eða af hverju ekki?

8.Mamma Jóhönnu var með mani sem heitir Leó. Hvernig kom hann fram við Jóhönnu til að byrja með? Hvað gerði hann til að vinna traust hennar og verða vinur hennar? Hefur þér einhvern tíman fundist einhver vera vinur þinn bara til að fá eitthvað frá þér? Hvernig leið þér með það?

9.Hvernig misnotaði Leó Jóhönnu? Hvað sagði hann henni að myndi gerast ef hún segði mömmu sinni frá þessu?

10.Trúði Jóhanna Leó þegar hann sagði að mamma hennar myndi hata hana? Af hverju heldurðu að Leó hafi sagt þetta? Hvað myndir þú gera ef eldri krakki eða einhver fullorðinn léti þig gera eitthvað og myndi síðan láta þig lofa að segja aldrei neinum frá?

11.Eftir að Jóhanna sagði Sverri, pabba hennar Dagnýjar, hvað hefði gerst, hvernig hjálpaði hann henni þá?

12.Hver var Margrét? Hvað hjálpaði hún Jóhönnu að gera? Hvernig brást mamma hennar Jóhönnu við fyrst þegar Jóhanna talaði við hana um Leó? Auk þess að hjálpa Jóhönnu að segja mömmu sinni frá þessu – hvernig hefði Margrét getað hjálpað Jóhönnu og mömmu hennar enn frekar?

BRÉFASKRIFTIR

Notið eftirfarandi upphaf að bréfum til að hvetja börn til að tjá sig varðandi þá misnotkun sem Jóhanna varð fyrir. Hægt er að nota þessi bréf til að koma af stað og örva umræður – eða senda þau til leikbrúðanna í kjölfar sýningarinnar í skólanum.

Kæri Stefán,

Þú hjálpaðir Jóhönnu geysilega mikið með því að hlusta á sögu hennar. Þú hefðir líka getað hjálpað henni með því að ….

Kæra Jóhanna,

Þegar þú reyndir að tala við mömmu þína – og hún var ekki að hlusta – þá hefðirðu getað reynt að tala við einhvern annan. Þegar ég þarf að tala við einhvern þá ….

Kæra mamma hennar Jóhönnu,

Ég er óskaplega glaður yfir að Jóhanna hafi loksins getað rætt málin við þig. Stundum er erfitt að tala við fullorðna af því að …

Kæra Jóhanna,

Börn þurfa að kunna að tryggja öryggi sitt. Ef mér finnst ég einhvern tíman óöruggur þá ætla ég ….

VERKEFNI Í KENNSLUSTOFUNNI

HVAÐ EF ….

Markmið: Nemendur munu fá tækifæri til að fara á hugarflug (brainstorm) við að reyna að finna mögulegar lausnir á hugsanlega hættulegum og ofbeldisfullum aðstæðum.

Námsefni: “Það sem kennarar og aðrir fullorðnir ættu að vita” úr námsefni Krakkanna úr hverfinu um Kynferðislega misnotkun (bls. )

Það sem börn ættu að vita úr námsefni Krakkanna úr hverfinu um kynferðislega misnotkun (bls. )

“Hvað ef … leikþættir” úr námsefni Krakkanna úr hverfinu um kynferðislega misnotkun (bls. )

Framkvæmd: 1.Stjórnendur verkefnanna ættu að undirbúa sig með því að lesa “Það sem kennarar og aðrir fullorðnir ættu að vita” úr námsefni Krakkanna úr hverfinu um kynferðislega misnotkun.

2.Takið ykkur tíma til að fara yfir með bekknum greinina “Það sem börn ættu að vita” úr námsefni Krakkanna úr hverfinu um kynferðislega misnotkun. Útskýrðu að þú munir fyrst lesa fyrir þau texta sem fjallar um kringumstæður sem börn geta lent í og að allir eigi síðan að ræða um hugsanleg viðbrögð við hverjum aðstæðum fyrir sig. Útskýrið hvernig það eitt; að maður velti því fyrir sér hvernig maður á að bregðast við í mismunandi aðstæðum, getur reynst gagnlegt ef maður lendir í svipuðum kringumstæðum.

3.Lestu eina spurningu í einu fyrir bekkinn. Ræðið síðan um hverjar aðstæður fyrir sig áður en þið vindið ykkur í næstu spurningu. Sumar aðstæðurnar sem lýst er í spurningunum eru viljandi hafðar óljósar og tvíræðar – eins og þegar þjálfari klappar leikmanni. Aðrar – eins og þegar einhver snertir einkastaði barns í bíósal – eru nokkuð afdráttalausar. Svörin við óljósu, tvíræðu aðstæðunum munu verða fjölbreyttari en svörin við hinum skýrari. Uppástungur sem eru óviðeigandi eða óöruggar ætti umsvifalaust að leiðrétta. Minnið börnin á það af og til – meðan á verkefninu stendur – að þau hafa fullan rétt á að segja “Nei” við hvers konar óvelkominni eða óþægilegri snertingu.

Eftirfylgni:Minnið börnin á að enginn eigi nokkurn tíman skilið að verða fyrir ofbeldi eða misnotkun og að þegar misnotkun eigi sér stað þá sé það aldrei barninu að kenna. Útskýrið fyrir nemendum að með því að æfa sig í að bregðast við þessum “hvað ef …” spurningum – þá geti það hjálpað þeim við að búa sig undir að bregðast við hugsanlegum vandamálum eða erfiðum aðstæðum. Leggið samt áherslu á að hversu vel undirbúin þeim finnist þau vera – þá eigi þau alltaf að tala við einhvern fullorðinn sem þau treysta – þegar eitthvað kemur þeim úr jafnvægi; þau verða ringluð, ráðvillt eða líður illa vegna einhvers.

Hugsanleg viðbót:

(má sleppa)Látið börnin teikna mynd af sjálfum sér þar sem þau eru að koma sér út úr óöruggum eða óþægilegum aðstæðum.

“HVAÐ EF ..” KRINGUMSTÆÐUR

Hvað ef … þú ert á gangi í hverfinu þínu og bíll ekur upp að þér og manneskjan í bílnum fer að spyrja þig til vegar?

Hvað ef … þú hefur verið í einhverjum leik með hópi fólks á netinu. Í lok leikjarins, ferð þú að “spjalla” við einn leikmanninn. Hann fer að spyrja þig alls konar spurninga eins og “Í hvaða íþróttafélagi ertu? Í hvaða bekk ertu? Og í hvaða skóla ertu?”

Hvað ef … foreldrar þínir fá barnapíu til að passa þig og yngri systkini þín á meðan þau fara út að skemmta sér. Eftir að foreldrar þínir eru farnir setur barnapían spólu í myndbandstækið. Á spólunni er fullt af nöktu fólki – og hún biður þig um að horfa á spóluna með sér?

Hvað ef … þú ert á fótboltaæfingu og boltanum er sparkað út af og yfir girðinguna. Þú ferð að ná í boltann. Fullorðinn maður heldur á boltanum og spyr: “Hvað ertu til í að gera til að fá boltann til baka?”

Hvað ef … þú ferð í bíó með frænda þínum – og þegar ljósin slokkna – finnurðu hvernig frændi þinn teygir hendina í kjöltu þér og snertir einkastaðina þína?

Hvað ef … þú ert í afmælisveislu og eldri vinur fjölskyldunnar dregur þig inn í svefnherbergi og byrjar að kyssa þig? Eftir eina eða tvær mínútur sleppir hann þér og segir: “Ef þú segir einhverjum frá þessu … þá mun ég meiða þig alvarlega eða ganga gjörsamlega frá þér”.

Hvað ef … nágranni þinn, sem þú kannt afar vel við, byrjar að bjóða þér hingað og þangað … á alls konar skemmtilegar sýningar og spennandi staði? Í einni svona ferð fer nágranni þinn að tala um hvað þú lítir svakalega vel út og hvað hann elski þig og þrái þig heitt.

Hvað ef … systir þín sem er unglingur segir þér að hún sé búin að fá vinnu hjá manni sem ætlar að borga henni fullt af peningum fyrir að sitja fyrir hjá sér. Það eina sem hún þurfi að gera er að leyfa honum að taka myndir af sér.

Hvað ef … þú ert í einhverri verslunarmiðstöð með nokkrum vinum þínum meðan mamma þín er að versla. Einhver ókunnugur kallar á þig með nafni, kemur síðan til þín og byrjar að tala við þig eins og þið þekkist. Þessi einstaklingur vill að þú komir með honum því hann ætli að sýna þér eitthvað.

Hvað ef … þú ert í gamni-slag við frænda þinn og hann byrjar að kitla þig á stöðum sem alla jafna eru huldir sundfötum þegar þú ferð í sund?

Hvað ef … mamma vinar þíns biður þig um að fara úr fötunum og leyfa sér að taka þig upp á vídeó … bara svona að gamni?

Hvað ef … einhver sem er eldri en þú – en þú telur vera besta vin þinn, biður þig um að kyssa sig út um allan líkamann. Hann segir þér að ef þú gerir það ekki þá verði hann ekki vinur þinn áfram.

Hvað ef … einhver ókunnugur hleypur upp að þér úti á strætó-stoppistöð og segir þér að mamma þín hafi lent í bílslysi og að hann verði að fara með þig til mömmu þinnar eins og skot?

Hvað ef … þú ert að gista hjá vini þínum og mamma hans og pabbi bjóða þér einhver lyf eða vín til að “þú slakir nú aðeins á”?

Hvað ef … þú ert að hjálpa frænku þinni með því að fara með lítinn son hennar á klóið? Þegar þið komið út úr klósett-klefanum er einhver þar sem býðst til að hjálpa þessum litla frænda þínum að renna upp buxnaklaufinni.

Hvað ef … einhver fjölskylduvinur vill ræða við þig einslega um kynlíf og sýnir þér alls konar kynferðislegar myndir í tímariti? Hann segir að þú eigir að vera forvitin um svona hluti og að hann geti hjálpað þér við að skilja þá.

Hvað ef … þú ferð út að borða með hópi fólks; bæði fullorðnum og krökkum og einn þeirra fullorðnu tekur utan um þig og snertir geirvörturnar á þér í leiðinni … en segir síðan að það hafi verið óvart? Síðan gerist þetta aftur.

Hvað ef … vinur þinn byrjar að stríða öðrum krökkum í skólanum og fer að lenda hvað eftir annað í slagsmálum? Þú spyrð vin þinn af hverju hann sé orðinn svona mikið hrekkjusvín og hann segir þér að annað foreldri hans komi inn í herbergið hans á næturnar og meiði hann kynferðislega. Hann segir þér að ef þú segir einhverjum frá þessu leyndarmáli þá muni hann berja þig í klessu.

Hvað ef … þú lendir í verkefnahóp með einhverjum í bekknum sem er mjög þögull og feiminn? Þegar þú ferð heim til þessa bekkjarfélaga þíns til að læra – þá geturðu ekki einbeitt þér – því það er stöðugur straumur af fullorðnu fólki sem kemur og fer. Þetta fólk er að reykja og drekka vín.

Hvað ef … þú og mamma þín farið að versla í verslunarmiðstöð og þið verðið viðskila? Það er enginn starfsmaður á upplýsingaborðinu. Bílastæðin eru ekki langt í burtu og þú ert nokkuð viss um að þú munir hvar mamma þín lagði bílnum.

RAUTT LJÓS, GRÆNT LÓS

Markmið: Að nemendur verði bæði færir um að greina þær kringumstæður sem forðast ber og að segja einhverjum fullorðnum, sem þeir treysta umsvifalaust frá.

Leikmunir:Hringir úr stífum grænum föndurpappa

(u.þ.b. 6” í þvermál) – einn á hvern nemanda

Hringir úr rauðum stífum föndurpappa (u.þ.b. 6” í þvermál) – einn á hvern nemanda

Sögur á næstu tveimur síðum

Framkvæmd: 1.Ræðið um upplýsingarnar um persónulegt öryggi sem fram koma í kfaflanum “Það sem börn ættu að vita. Veljið eina af sögunum sem hér fara á eftir – eða semjið ykkar eigin til að lesa fyrir bekkinn. Segið nemendunum að í sögunni sem þú ætlir að lesa séu einstaklingar sem viti ekki alltaf hvernig þeir eiga að tryggja öryggi sitt. Stundum velur aðal sögupersónan rétta og örugga kostinn og stundum gerir hún/hann það ekki. Biðjið bekkinn um að hlusta vandlega á söguna en ekki sýna nein viðbrögð strax – og ekki tala um söguna.

2.Afhendið hverjum nemanda einn rauðan hring og einn grænan hring. Útskýrið að rauði hringurinn þýði “Stopp”, sem gefur til kynna að aðstæður persónunnar í sögunni séu varhugaverðar. Græni hringurinn þýðir “Af stað” sem þýðir að persónan í sögunni sé að taka skynsamlegar, öruggar ákvarðanir. (Útskýrið fyrir börnunum í bekknum að þau eigi að taka sínar eigin ákvarðanir en ekki bara herma eftir hinum krökkunum).

3.Segið nemendunum að þið ætlið að lesa sömu söguna aftur og að þeir eigi að lyfta upp rauðu og grænu hringjunum á viðeigandi stöðum. (Lesið söguna hægt og gerið stutt hlé á milli setninga, svo að nemendurnir geti velt aðstæðunum – og svörunum fyrir sér). Í hvert sinn sem nemendurnir bregðast við og svara, gerið þá hlé á lestrinum og ræðið um það hvort persónan í sögunni sé örugg eða hugsanlega í vafasömum aðstæðum. Ef persónan er ekki örugg, ræðið þá um það hvort persónan geti einhvern veginn aukið öruggi sitt.

4.Útskýrið fyrir nemendunum að þeir hafi í raun notað tilfinningar sínar og innsæi til að ákvarða hvort persónan í sögunni var örugg eða óörugg. Leggið áherslu á að þegar þau verða finna fyrir óöryggi eða ónotakennd í raunverulegum kringumstæðum – þá sé best að gera ráð fyrir að aðstæðurnar séu ekki öruggar.

Viðbót:(Fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskólans) Afhendið hverjum nemanda eintak af sögu. Látið nemendurna síðan endurskrifa söguna svo að sögupersónan sé örugg. Látið nemendurna lesa endurskrifuðu sögurnar sínar fyrir bekkinn.

RAUTT LJÓS, GRÆNT LJÓS

SÖGUBLAÐ

1.Kristján labbar venjulega í skólann með nokkrum vinum sínum. Allir þessir krakkar þekkjast vel og m.a.s. foreldrar þeirra þekkjast líka nokkuð vel. Þess vegna eru þeir mjög ánægðir með að krakkarnir skuli alltaf fylgjast að í skólann. Nema hvað … í síðustu viku svaf Kristján yfir sig. Pabbi hans var farinn í vinnuna og mamma hans var að bíða eftir að kona sem hún vinnur með kæmi að ná í hana. “Bíddu, átt þú ekki að vera farinn í skólann?” spurði mamma Kristjáns þegar hann kom á náttfötunum fram. Til að forðast nöldur og vesen sagði Kristján að það væri frí í fyrsta tíma. Á sama augnabliki renndi samstarfskona mömmu hans í hlað. “Allt í lagi, elskan … við sjáumst þegar þú kemur heim úr skólanum” sagði mamma hans um leið og hún hentist út í bíl. Kristján leit á klukkuna og hugsaði með sér að ef hann hlypi alla leiðina – þá myndi hann sennilega ná því að mæta á réttum tíma. Hann klæddi sig á mettíma, reimaði skóna, greip skólatöskuna og hljóp út. Vinir hans voru auðvitað hvergi sjáanlegir. “Þeir eru náttúrulega löngu farnir” hugsaði Kristján um leið og blár sendiferðabíll keyrði inn í innkeyrsluna á húsi sem hann var að fara framhjá. Kristján stoppaði og ökumaðurinn renndi niður hliðarrúðunni. “Ert þú líka orðinn of seinn?” spurði Sigríður. Tommi, vinur Kristján, sat í farþegasætinu og baðaði út öllum öngum eins og hann væri að segja: “Flýttu þér. Stökktu upp í!”

2.Júlía var búin að logga sig inn á spjallrás á netinu, sem Katrín bekkjarsystir hennar hafði bent henni á. Þær voru að bera saman bækur sínar; reyna að láta sér detta eitthvað í hug fyrir eðlisfræðiverkefni sem þær áttu að skila eftir fáeina daga. Allt í einu loggaði sig einhver annar inn. “Hæ. Pláss fyrir 1 í viðbót?” spurði 8villtur.

“OKI. Vantar hugmynd fyrir eðlisfræðiverkefni” svaraði Katrín. Hún var miklu fljótari að pikka en Júlía.

“Hvaða skóla?” spurði 8villtur. Júlía svaraði eins og skot “Man ekki hvað hann heitir”. 8villtum fannst þetta ekki fyndið. “LOL – í alvöru … hvað er málið?”

“Ekkert mál. Langholts” svaraði Katrín.

“Ekki eins stíf og vinkonan, Boltabeib?” sagði 8villtur. “Kva heitiru?” Júlía var nokkuð viss um að hún þekkti ekki þennan 8villta. Hún vissi líka að foreldrar hennar myndu ekki vilja að hún væri að tjatta við ókunnuga en hún vildi heldur ekki skilja vinkonu sína eftir eina … eða þannig. “Hey” pikkaði hún í flýti, “hringdu í mig heim, boltabeib.”

“Á eftir” svaraði Katrín.

“Er með frábæra eðlisfræðihugmynd. Hittu mig í Kringlunni eftir hálftíma” – Þessi 8villti var sko ekki á því að gefast upp. Júlía stökk upp frá tölvunni og hljóp inn í eldhús meðan bekkjarsystir hennar og þessi ókunnugi maður héldu áfram að tjatta. “Verðuru komin eftir 30m?” spurði 8villtur Katrínu. “Veit ekki. Verð að bíða eftir mömmu” Katrín vissi að hún átti að vera að læra en þetta var samt ógeðslega spennandi. 8villtur spurði hana hvort hún vildi kannski frekar hitta hann í Smáralindinni eða kannski niðri á Hlemmi. Svo allt í einu spurði hann: “Eigum við ekki bara að hittast heima hjá þér?”

Áður en Katrín náði að svara var bankað hraustlega á útidyrahurðina. “Katrín!” Þetta var Júlía. “Opnaðu! Við mamma þurfum að tala við þig.” Katrín loggaði sig út af tölvunni og hljóp fram í forstofu.

3.Svava, Lilja og Kristín voru að hjóla á gangstéttinni. Þær gættu þess að fara ekki langt frá heimilum sínum. Þegar þær beygðu fyrir hornið tóku þær eftir því að rauður sendiferðabíll nam staðar á götunni og það leit út fyrir að ökumaðurinn hefði stoppað til að tala við þær. Vinkonurnar sá mann og konu í bílnum og bæði litu þau út fyrir að vera sorgmædd og í hálfgerðu uppnámi. Konan skrúfaði niður rúðuna og spurði “Hafið þið séð lausan hund? Við erum nefnilega búin að týna hvolpnum okkar.” Svava fann til með týnda hvolpnum og hristi höfuðið leið á svip um leið og hún svaraði, “Nei”. Maðurinn hallaði sér yfir konuna og sýndi þeim mynd af hundinum og sagði, “Sjáiði hann. Er hann ekki sætur? Getiði nokkuð hjálpað okkur að finna hann.” Lilja steig niður af hjólinu og ætlaði að fara að skoða myndina þegar Kristín sagði, “Bíddu, Lilja! Við skulum segja foreldrum okkar frá þessu. Kannski hafa þau séð hundinn. Stelpur, drífum okkur.” Þeir settust allar umsvifalaust á hjólin sín og fóru heim til Kristínar af því að það var styst þangað. Þegar þær komu inn sögðu þær mömmu hennar Kristínar frá því sem hafði gerst.

4.Anton býr með mömmu sinni og tveimur eldri bræðrum sínum. Fyrir mánuði síðan fór mamma hans að vera með Gunnari, sem hún hefur unnið með í meira en fimm ár. Anton kann mjög vel við Gunnar. Þeir horfa á sömu bíómyndirnar, finnst sami maturinn góður og stundum gefur Gunnar Antoni gjafir. Anton var vanur að spyrja alltaf mömmu sína hvort hann mætti þiggja gjafirnar áður en hann tók við þeim. Í gær fór Anton hinsvegar í bíó með Gunnari. Gunnar keypti popp handa þeim, nammi og stóra kók sem hann sagði að þeir gætu drukkið saman. Þegar búið var að slökkva ljósin í bíóinu, teygði Gunnar sig yfir til Antons og byrjaði að snerta einka-staði Antons. Anton hvíslaði, “Hættu þessu”. Gunnar baðst afsökunar og sagði að hann hefði misst eitthvað í kjöltuna á Antoni. En svo gerði Gunnar þetta aftur. Anton fékk svona skrýtna tilfinningu í magann … honum varð eiginlega óglatt. Hann stóð upp í bíóinu og sagði, “Ég verð að fara á klóið. Einn.” Hann fór í miðasöluna og fékk að hringja í mömmu sína. Hann sagði henni að svoldið slæmt hefði gerst og að hún yrði að koma strax og ná í hann í bíóið. Síðan sagði hann konunni í miðasölunni að hann yrði að fá að bíða í búrinu hjá henni þar til mamma hans kæmi að ná í hann og að Gunnar mætti ekki koma nálægt honum.

LEIKRÆNN HLUTVERKALEIKUR

LEIÐBEININGAR:

1.Skiptið nemendum í tveggja til fimm manna hópa.

2.Dreifið einni af eftirfarandi þremur sviðssetningum til hvers hóps.

3.Ræðið söguna og hugsanleg vandamál og valkosti í hverri sviðssetningu fyrir sig.

4.Hver hópur ætti að skipa í hlutverk og semja raunhæfan endi. Segið hópunum að þeir geti bætt við persónum, látið leikþáttinn gerast á fleirum en einum stað og þeim sé frjálst að bæta við leikþáttinn að vild. Hvetjið þá til að nota EKKI eins orðs endingar.

5.Látið nemendurna æfa fullbúinn leikþáttinn í það minnsta tvisvar sinnum. Þeir þurfa ekki að leggja textann á minnið. Þeir geta lesið hann úr handritunum.

6.Látið nemendurna sýna leikþáttinn fyrir allan bekkinn og segið þeim að vera undir það búna að ræða ástæðurnar fyrir því af hverju þeir völdu þennan tiltekna endi á söguna.

UMRÆÐUR: Þegar nemendur hafa lokið við að sýna leikþætti sína, ræðið þá hvað gerðist meðan á sýningu stóð með því að spyrja eftirfarandi spurninga:

1.Hvernig leið þínum “karakter”; þinni persónu?

2.Líkaði þér vel að leika þinn “karakter”; þína persónu? Af hverju eða af hverju ekki?

3.Telur þú að viðbrögð þinnar persónu hafi verið eðlileg og raunhæf?

4.Á hvaða annan hátt hefði þessi saga getað endað?

Gangið úr skugga um að nemendur sjái tenginguna milli þeirra eigin viðhorfa og þeirra sem kynnt hafa verið. Ítrekið upplýsingarnar sem komu fram í leikbrúðusýningunni.

Leikþáttur A: Ókunnugur maður/kona í garðinum

Sviðsetning:Tveir vinir eru að leika sér í almenningsgarði þegar ókunnugur maður/kona nálgast þá og biður þá um aðstoð.

Persónur:Palli – krakki

Kiddi – vinur Palla

Ókunnugur maður/kona – fullorðinn aðili sem hvorki Palli né Kiddi þekkja

Palli:Hey … athugum hvað við getum hent “frissbí” disknum oft á milli okkar án þess að missa hann.

Kiddi:Ókey. En ég held að við eigum samt ekki eftir að slá gamla metið okkar. Hvað sagði mamma þín að við hefðum verið hérna úti í marga klukkutíma þá?

Ókunnugur

maður/kona:Snati! Komdu karlinn. Snati! Snaaaatiiii!

Palli og Kiddi horfa á ókunnuga manninn/konuna nálgast.

Ókunnugur

maður/kona:Hæ, krakkar. Hafið þið séð hundinn minn?

Kiddi:(stígur eitt skref aftur á bak) Nei, við höfum ekki séð neina hunda.

Palli:Hvernig lítur hundurinn þinn út?

Ókunnugur

maður/kona:(tekur mynd upp úr vasa sínum og lítur á hana) Ja, hann er ekki mjög stór og hann er brúnn og hvítur … haldiði að þið getið hjálpað mér að finna hann ….

Palli:(stígur eitt skref í átt að ókunna manninum/konunni, eins og hann vilji sjá myndina) Má ég sjá?

Kiddi:Við getum því miður ekki hjálpað þér því við verðum að fara.

Ókunnugur

maður/kona:En Snati er svo hrifinn af krökkum. Ég er viss um að ef þið kallið bara á hann … svona: “Snati, komdu karlinn … Snati …” þá myndi hann sennilega koma til ykkar.

FULLKLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ HANN SÍÐAN MEÐ HÓPNUM YKKAR.

Leikþáttur B: Lofað að þegja yfir leyndarmáli

Sviðsetning:Rakel er í herberginu sínu að tala við Vigdísi vinkonu sína.

Persónur:Vigdís

Rakel

Rakel:Ókey, hvað er að hjá þér? Af hverju ertu búin að vera svona skrýtin síðustu tvo eða þrjá daga?

Vigdís:Ég er ekkert búin að vera skrýtin.

Rakel:Víst. Þú ert búin að vera stórfurðuleg!

Vigdís:Ja … ég get bara ekkert talað um það. Það er leyndó.

Rakel:Ó.

Vigdís:Það er rosalega STÓRT leyndarmál. Og ég … Æ, nei … ég má þetta ekki.

Rakel:Byrjarðu … eina ferðina enn! Þig langar til að segja mér það. ÉG VEIT að þig langar til þess.

Vigdís:Nei. Ég get það ekki. Ég lofaði. Og svo er þetta ekki einu sinni MITT leyndarmál … heldur frænku minnar.

Rakel:Bíddu … en ég þekki ekki einu sinni frænku þína. En … ég meina … allt í lagi … ef þú vilt ekki segja mér …

Vigdís:Ókey – þú togaðir þetta upp úr mér! Frænka mín sagði mér að þjálfarinn hennar hefði … sko … eiginlega … snert hana.

Rakel:Hvað meinarðu … “snert hana”?

Vigdís:Þú veist, SNERT hana … snert brjóstin á henni … farið undir bolinn hennar og allt!

Rakel: Hvað GERÐI hún?

Vigdís:Hún vissi ekkert hvað hún átti að gera. Hún var bara alveg skíthrædd og alveg í rusli. Hún grét og grét þegar hún sagði mér frá þessu og lét mig lofa því að segja engum frá þessu. Hún færi alveg í klessu ef hún vissi að ég hefði sagt þér þetta. Þú matt ekki segja neinum neitt! Lofarðu að þegja yfir þessu?

FULLKLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ HANN SÍÐAN MEÐ HÓPNUM YKKAR.

Leikþáttur C: “Sýndarveruleika-vinir”

Sviðsetning:Maggi situr einn fyrir utan blokkina sem hann býr í.

Persónur:Maggi

Tommi

Maggi lítur í kringum sig, eins og hann sé að skima eftir einhverjum þegar Tommi vinur hann nálgast.

Tommi:Hæ Maggi. Hvað ertu að gera hérna úti?

Maggi:Æ, Hæ Tommi. Ég er sko að fara að hitta … uhhh. Ég meina … ég er bara að slæpast (tjilla) … bara smá pása frá ritgerðinni.

Tommi:HVERN ertu að fara að hitta? Áttu kannski leyndan aðdáanda? Kannski kærustu … sem enginn veit um?

Maggi:Nei. (lítur í kringum sig taugaveiklaður) Æ, góði … þegiðu.

Tommi:Bíddu, hvað er í gangi?

Maggi:Ekkert. Ég bara vil ekki að mamma verði brjáluð. Ég er að fara að hitta J.T. vin minn.

Tommi:Hver er það?

Maggi:Æ, bara strákur. Við spilum stundum stríðleik á netinu. Við tjöttum svo stundum á MSN-inu. Hann ætlaði að koma yfir.

Tommi:Veit þessi stríðsleikja gæi hvar þú átt heima?

Maggi:Já … ég sagði honum það af því að ….

Tommi:Sagðirðu einhverjum ókunnugum gæja sem þú hittir á netinu hvar þú átt heima?!!

Maggi:Slakaðu á … hann er ekkert ókunnugur. Ég var að segja þér það … við erum búnir að tjatta fullt á MSN-inu og senda “í-meil” og svoleiðis. Þetta er ógeðslega skemmtilegur gaur. Hann hlustar á sömu tónlist og við og fílar sömu myndirnar og allt það. Þér finnst hann ábyggilega æðislegur líka. Hann ætlar meira að segja að lána mér nýja karate-leikinn sem var að koma út. Þess vegna ákvað hann að keyra bara hingað til mín og hitta mig.

Tommi:Sko … bíddu nú aðeins … einhver eldri gaur sem þú kynntist í gegnum tölvu ætlar að keyra hingað til að lána þér glænýjan tölvuleik? Hvar er mamma þín?

Maggi:Hún fór að hjálpa Lindu systur sinni. Svo sagði J.T. líka að það það væri sennilega betra að ég hitti hann bara hérna úti því honum finnst eitthvað vandræðalegt að hitta mömmu mína.

FULLKLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ HANN SÍÐAN MEÐ HÓPNUM YKKAR.

Leikþáttur D: Stundum líður manni jafnvel illa í eðlilegum aðstæðum

Sviðsetning:Þegar Íris kemur heim úr skólanum sitja frænka hennar og frændi í borðstofunni við hliðina á eldhúsinu og bíða eftir henni.

Persónur:Íris

Nanna frænka

Teddi frændi

Íris:(kemur inn í borðstofuna með stóran bakpoka) Hæ mamma! Ég er komin!

Teddi frændi:Hæ, skvís. Mamma þín varð að fara á fund svo við Nanna frænka þín ætlum að vera hjá þér í dag.

Íris:Æði!

Nanna frænka:(um leið og hún gengur út úr borðstofunni inn í eldhúsið) Ég ætla að ná í eitthvert snarl handa okkur.

Teddi frændi:Komdu nú og knúsaðu Tedda frænda þinn. Það hlýtur að vera svakalega erfitt að halda á öllum þessum þungu bókum. Sestu hérna í fangið á mér og ég skal nudda á þér axlirnar.

Íris:(líður ónotalega) Ohhh, eeee … ég er nú eiginlega orðin of gömul fyrir það … er það ekki?

Teddi frændi:Þú verður aldrei of gömul til að láta dekra dáldið við þig! Nanna frænka þín segir það a.m.k. alltaf við mig.

Íris:Ég ætla að athuga hvort ég get ekki hjálpað Nönnu eitthvað í eldhúsinu. Ég kem eftir smástund. (fer inn í eldhúsið) Nanna … uhmmm … Teddi frændi vill nudda á mér bakið … en ég vil það ekki. Mér finnst það bara óþægilegt … svona inni í mér … skilurðu.

Nanna frænka:Nú – þá segirðu bara við hann: “Nei, takk”

Íris:En þá sárnar honum. Er þetta er rangt af honum að vilja gera þetta?

Nanna frænka:Þegar þú varst lítil þá fannst þér æðislegt þegar hann strauk á þér bakið – en nú þegar þú ert orðin eldri – þá finnst þér það óþægilegt eða óviðeigandi. Fólk þroskast og breytist … og tilfinningar þess þroskast og breytast líka. Þó þú segir “nei” þá þýðir það ekki að þér þyki ekki vænt um frænda þinn og það mun heldur ekki verða til þess að honum hætti að þykja vænt um þig. Enginn hefur gert neitt rangt. Teddi frændi þarf bara að fá að vita að þú sért vaxin upp úr því að láta strjúka á þér bakið. Það er nú allt og sumt.

Íris:Teddi ….

FULLKLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ HANN SÍÐAN MEÐ HÓPNUM YKKAR.