Ítarefni vegna líkamlegs ofbeldi

UM NÁMSEFNIÐ

Námsefni Krakkanna í hverfinu um líkamlegt ofbeldi var samið og þróað með það fyrir augum að fræða börn um líkamlegt ofbeldi og gera þau meðvituð um þá þjónustu sem í boði er.

Þetta námsefni er kennslugagn sem ætlað er að:

– skýra/skilgreina líkamlegt ofbeldi

– hvetja börn til að tala við einhvern fullorðinn ef þau telja að þau kunni að búa við ofbeldisfullar aðstæður

– kenna börnum að skilja tilfinningar sínar og hvetja þau til að tala um þessar tilfinningar

– veita upplýsingar um félagasamtök og stofnanir sem veita fjölskyldum í vanda stuðning og þjónustu

SPURNINGAR BARNA

Þar er að finna flestar þær spurningar sem búast má við á´sýningunni eða í kjölfar sýninganna og dæmi um hvernig Stefán myndi svara þeim. Þar að auki eru í köflunum “Kynnstu krökkunum” og “Það sem börn ættu að vita” mikilvægar upplýsingar sem munu koma að miklu gagni þegar verið er að undirbúa svör við spurningum.

ORÐALISTI

Orðalistinn inniheldur algeng orð sem tengjast líkamlegu ofbeldi, viðbrögðum við því og þeirri hjálp sem stendur til boða. Þessar upplýsingar munu reynast gagnlegar þegar verið er að undirbúa svör við spurningum nemenda. Ef þörf er á frekari upplýsingum eða viðbótarefni, hafið þá samband við skráðar stofnanir eða Blátt áfram í síma 893-2929

EFTIRFYLGNI

Í “Eftir sýninguna-hvað nú?” er fjöldinn allur af spurningum sem ætlað er að hvetja til rökræðna í bekknum og áhrifamiklum verkefnum sem hægt er að nota til að undirstrika þau skilaboð sem send voru í sjálfri sýningunni. Gott er að skilja eftir hjá kennurunum afrit af köflunum “Það sem krakkar ættu að vita” og “Eftir sýninguna-hvað nú?”.

KYNNSTU KRÖKKUNUM STEFÁN

Stefán er 11 ára og er aðalpersónan í leikþáttum Krakkanna í hverfinu um líkamlegt ofbeldi. Hann hefur mörg áhugamál; þ.á.m. matreiðslu, ljósmyndun og körfubolta. Bestu vinur hans er Númi og þeir eru alltaf að bralla eitthvað skemmtilegt saman. Stefán býr með móður sinni
pabba sínum og litlu systur sinni. Honum semur nokkuð vel við fjölskyldu sína – ekki síst núna þegar þau eru farin að vinna í sínum málum; fá þá hjálp sem þau þurfa á að halda.

Þau eru öll í meðferð hjá fjölskylduráðgjafa til að reyna að vinna úr þeim vandamálum sem líkamlegt ofbeldi hefur valdið þeim. Móðir Stefáns hafði beitt hann líkamlegu ofbeldi. Þegar hún var reið – þá lamdi hún hann. Nokkrum sinnum veitti hún honum það alvarlega áverka að hann varð að fara á spítala. Þegar Stefán loksins gerði sér grein fyrir að það sem hann bjó við var ekki “eðlilegt” varð hann mjög riglaður og reiður. Hann vildi ekki koma mömmu sinni í vandræði en hann vissi að hann yrði að tala við einhvern um þessi vandamál sín. Hann vildi komast að því hvað væri svona “vont” við hann að það ylli því að mamma hans berði hann. Loks ákvað Stefán að segja Lovísu frænku sinni frá ofbeldinu. Þegar hún trúði honum ekki þá var hann alveg miður sín en leitaði síðan til annars fullorðins einstaklings sem hann treysti; Sigrúnar, kennarans síns. Hún sagði að það væri alveg frábært að hann skyldi segja henni frá þessu. Sigrún sagði Stefáni að hann væri mjög hugrakkur og með því að tala við einhvern um vandamál sín væri hann ekki að koma mömmu sinni Í vandræði – heldur væri hann aðt aka fyrsta skrefið í átt að því að koma henni ÚR vandræðum. Sigrún talaði við skólastjórann og saman ræddu þau við félagsmálaþjónustuna. Félagsráðgjafi kom og talaði við Stefán, Sigrúnu og skólastjórann til að ákveða næsta skref. Félagsráðgjafinn rannsakaði málið og mælti síðan með því að fjölskyldan fengi hjálp; færi saman í fjölskylduráðgjöf.

NÚMI

Númi er 11 ára og einn af bestu vinum Stefáns. Í námsefni Krakkanna í hverfinu um líkamlegt ofbeldi er Númi hálf ringlaður; gerir sér ekki grein fyrir hvað ofbeldi á börnum er og hvað það er ekki. Í gegnum nærfærin en engu að síður gamansöm samskipti hans við Stefán – fara börnin í áhorfendasalnum að vita og skilja meira um ofbeldi. Númi kemur við sögu í nokkrum öðrum viðfangsefnum Krakkanna í hverfinu sem fjalla um eftirfarandi atriði: skemmdarfýsn, fjölþjóðamenningu og önnur úrræði en ofbeldi og klíku-aðild.

JÓHANNA

Jóhanna kemur við sögu í mörgum viðfangsefnum Krakkanna í hverfinu. Hún er aðalpersónan í sýningum Krakkanna í hverfinu um kynferðislega misnotkun, sem geta verið sýndar í tengslum við þetta efni. Jóhanna er 14 ára og er nágranni Stefáns. Foreldrar Jóhönnu eru fráskildir og hún býr hjá mömmu sinni. Í þessum leikþáttum er hún trúnaðarvinur Stefáns.

SPURNINGAR BARNA

1. HVAÐ ER FÉLAGSÞJÓNUSTAN?

Stefán: Sko, félagsþjónustan hjálpar fjölskyldum sem eiga við vandamál að stríða, eins og fjölskyldan mín. Sjáiði til, sumar fjölskyldur eru kannski að ganga í gegnum mjög erfitt tímabil og þurfa kannski á hjálp að halda til að komast í gegnum ákveðna erfiðleika – og þá geta þær leitað eftir hjálp hjá félagsþjónustunni. Mamma mín var til dæmis að ganga í gegnum mjög mikla erfiðleika af því að hún var alltaf ofboðslega sorgmædd og reið innra með sér. Í stað þess að tala um það – þá lét hún það bitna á mér. Fólkið hjá Félagsþjónustunni leiðbeindi mömmu og í raun allri fjölskyldunni um hvert við gætum leitað til að fá hjálp. Nú erum við í fjölskyldumeðferð og ræðum um öll okkar vandamál við Tómas, ráðgjafann

2. ÉG LENTI Í ÞVÍ SAMA OG ÞÚ.

Stefán: Ég skil … þannig að þú heldur að þú sért að lenda í því sama og ég lenti í. Hefurðu sagt einhverjum frá því?

Ef svarið er nei:

Stefán: Sko, ég var mjög hræddur við að segja frá þessu – en ég er ofboðslega feginn að ég skuli hafa sagt frá þessu því þá fékk fjölskyldan mín hjálp. Það er fullt af fólki sem þú getur talað við; kennari, námsráðgjafi, skólasálfræðingur eða einhver annar fullorðinn sem þú getur treyst. Ég sagði kennaranum mínum frá þessu og svo var hringt í félagsmálayfirvöld. Þegar félagsráðgjafinn kom við hjá okkur … þá var ég logandi hræddur … þangað til ég komst að því að fjölskyldan mín myndi fá hjálp. Nú er ég svakalega glaður með að hafa sagt frá þessu. Ef krakki heldur að hann sé að lenda í því sama og ég lenti í – þá ætti hann (eða hún) að segja einhverjum fullorðnum aðila sem hann treystir frá því eins og skot.

Ef svarið er já:

Stefán: Ég er mjög ánægður með að þú skulir hafa sagt einhverjum frá þessu. Það er mjög áríðandi að þú segir einhverjum fullorðnum sem þú treystir frá því ef þú heldur að þú sért að lenda í því sama og ég lenti í. En ég er mjög feginn að ég skuli hafa sagt frá því það var þess vegna sem fjölskyldan mín fékk hjálpina sem hún þurfti svo mikið á að halda.

3. MAMMA OG PABBI RASSSKELLA MIG. ER ÞAÐ OFBELDI GEGN BÖRNUM?

Stefán: Það er mjög erfitt fyrir mig að segja til um hvort barn er beitt ofbeldi eða ekki. Tómas, ráðgjafinn minn, sagði mér að sumir foreldrar flengi börnin sín með því að slá einu sinni eða tvisvar á bossann á þeim með hendinni þegar krakkarnir gera eitthvað slæmt af sér. Það sem ég lenti í var samt allt öðruvísi. Sko, Tómas sagði mér að líkamlegt ofbeldi væri þegar foreldrar – eða það fólk sem á að hugsa um barnið, lemji barnið fast hvað eftir annað. Þegar mamma mín var að berja mig … þá var ég allur blár og marinn í langan tíma á eftir. Stundum lamdi hún mig svo svakalega fast að ég varð að fara á slysavarðsstofuna eða til læknis. Eins og ég sagði þá er það mjög erfitt fyrir mig að segja til um hvort verið sé að beita barn ofbeldið eða ekki – af því ég þekki ekki aðstæðurnar og ég er ekki ráðgjafi eða neitt svoleiðis. En ef að einhver krakki er ekki viss; eða er orðinn alveg ringlaður í þessu öllu saman – þá þarf hann eiginlega að tala við einhvern fullorðinn sem hann treystir eins fljótt og hægt er … og fá einhverja hjálp.

4.VARSTU EKKERT HRÆDDUR VIÐ AÐ KLAGA MÖMMU ÞÍNA?

Stefán: Ég var viti mínu fjær úr hræðslu. Þetta var það erfiðasta sem ég hef nokkurn tíman þurft að gera. Það tók mig langan tíma að safna kjarki til að geta gert þetta. Mér fannst eins og ég væri að koma mömmu í hvílík vandræði. En ég var laminn og barinn daginn út og daginn inn … svo smám saman gerði ég mér grein fyrir því að ég yrði að gera eitthvað. Ég var mjög óhamingjusamur og ég skildi ekki af hverju þetta var að gerast; af hverju ég væri að lenda í þessu. Og ég get sagt ykkur eitt; mömmu leið líka ógeðslega illa. Ég meina … hún var heldur ekkert sátt við hvernig hún fór með mig. Hún vissi bara ekkert hvernig hún átti að höndla reiðina; hvernig hún átti að bregðast við henni … svo hún lét hana bitna á mér. Ég veit það núna að ég var ekki að koma mömmu minni í vandræði með því að segja einhverjum frá því sem var í gangi. Ég var að koma henni út úr vandræðum … og bjarga hinum í fjölskyldunni í leiðinni.

5.LEMUR MAMMA ÞÍN ÞIG EINHVERN TÍMAN NÚNA?

Stefán: Mamma hefur ekki lamið mig í dáldinn tíma. Hún er að læra aðrar aðferðir til að fá útrás fyrir reiðina. Mér finnst ráðgjöfin hafa hjálpað henni ofboðslega. Mamma fór að skilja tilfinningar sínar miklu betur og ég held að hún sé mjög fegin að við séum öll að vinna í málinu saman. Ekki misskilja mig … þetta er ekkert fullkomið ennþá. Stundum verður hún alveg stjörnuvitlaus og ég verð skelfingu lostinn … en núorðið reynir hún að yfirgefa herbergið svo hún láti reiðina ekki bitna á mér. Eða … hún reynir að telja upp á tíu, setja tónlist á fóninn eða hringja í einhverja vinkonu sína. Hún er líka með neyðarnúmer sem hún hefur orðið að hringja nokkrum sinnum í. Sko, þetta er ráðgjafinn hennar sem foreldri eða einhver annar fullorðinn sem er að hugsa um barn hringt og talað við einhvern ef viðkomandi finnur að hann er missa stjórn á skapi sínu. Mamma er búin að leggja rosalega mikið á sig … hún er búin að vinna svakalega mikið í sínum málum og hún er líka miklu sáttari við sjálfa sig núna.

6.HVAÐ GERÐI MAMMA ÞÍN VIÐ ÞIG?

Stefán: Ástandið heima hjá mér var alveg hræðilegt. Hún lamdi mig og barði svo svakalega … jafnvel þegar ég var ekki að gera neitt af mér … heldur varð hún kannski allt í einu alveg brjáluð yfir einhverju sem kom mér bara ekkert við. Ég sat kannski bara mjög rólegur þegar eitthvað gerðist skyndilega og hún bara sprakk. Og einu sinni man ég að ég hellti óvart niður djúsglasi … og hún gjörsamlega tapaði sér. Hún skellti mér ógeðslega fast utan í vegg. Nú … tvisvar eða þrisvar varð ég að fara upp á spítala. Og þegar fólk sá marblettina og sárin á mér – og fór að spyrja – þá bjó ég til alls konar fáránlegar skýringar og sögur um hvernig ég hefði dottið úti á róló eða rekist á hurð o.s.frv. o.s.frv. Ég held mér hafi fundist ég verða að vernda mömmu mína. En nú veit ég náttúrulega að ég verð að vernda sjálfan mig líka. Og með því að segja einhverjum frá ástandinu á heimilinu – þá var ég að bjarga sjálfum mér og mömmu minni úr verulegum vandræðum.

7. AF HVERJU GERÐI PABBI ÞINN EKKERT TIL AÐ STOPPA ÞETTA?

Stefán: Pabbi minn vissi í rauninni ekkert nákvæmlega hvað var í gangi. Hann sá sárin og marblettina á mér og spurði hvað hefði gerst – en ég laug að pabba eins og öllum öðrum. Ég sagði honum að ég hefði meitt mig í fótboltaleik … eða kom með einhverjar aðrar afsakanir. Hann var ekkert mikið heima, var alltaf að vinna, svo hann vissi ekkert um alls konar hluti sem gerðust á heimilinu. Ég held að það hafi ekki heldur hjálpað til – heldur gert hana enn örvæntingarfyllri. Ég held að henni hafi fundist hún bera alla ábyrgðina á fjöslyldunni … og það er sko heilmikil ábyrgð að bera.

8. LAMDI MAMMA ÞÍN SYSTUR ÞÍNA LÍKA?

Stefán: Nei, hún lamdi Stínu ekki – en ég var dauðhræddur um að hún myndi byrja á því líka. Stína var líka dauðhrædd um það. Hún var samt aðallega hrædd um mig því mamma lét reiði sína yfirleitt bitna á mér. En ég get sagt ykkur það … að þó að hún hafi ekki verið barin … þá var þetta ofboðslega eriftt og sársaukafullt fyrir hana að horfa upp á það hvernig mamma fór með mig. Það hefur sennilega sært hana jafnmikið og það særði mig.

ÞAÐ SEM BÖRN ÆTTU AÐ VITA UM OFBELDI GAGNVART BÖRNUM

Það eru nokkrar mismunandi tegundir ofbeldis sem börn geta orðið fyrir; líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, tilfinningalegt ofbeldi og vanræksla. Í mörgum tilfellum fara saman fleiri en ein tegund ofbeldis.

LÍKAMLEGT OFBELDI

Líkamlegt ofbeldi felur í sér að einhver meiði líkama einhvers annars viljandi; með því að berja hann mjög fast, annað hvort með höndinni, hnefanum, hristi lítið barn mjög harkalega eða lemji krakka mjög fast með hlut eins og kylfu, spýtu eða belti – eða brenni barn t.d. með sígarettu eða straujárni. Að sparka í manneskju eða ýta henni mjög fast getur líka verið ofbeldi. Stundum eru aðstæður barns þannig að foreldri eða sá fullorðni aðili sem á að hugsa um barnið, er í reynd sá sem níðist svona á honum eða henni. Þegar sá sem gegnir svona mikilvægu hlutverki í lífi barns sýnir þessa tegund hegðunar – þá ruglast barnið gjarnan gjörsamlega í ríminu. Stundum fer barnið að halda að hann eða hún sé “vont barn” og verðskuldi á einhvern hátt svona meðferð. Þessi hugsunarháttur getur einnig haft áhrif á aðra þætti í lífi barnsins. Líkamlegt ofbeldi getur haft áhrif á börn á mismunandi hátt. Barn getur orðið hrætt við fullorðna eða hrætt við að reyna nýja hluti. Það getur orðið afar lokað og einrænt; þ.e. vill ekki leika við önnur börn, vill ekki tala við fólk, virðist vera sama um alla hluti. Einnig getur barn sem beitt er ofbeldi orðið verulega árásargjarnt; þ.e. lendir hvað eftir annað í slagsmálum, segir verulega andstyggilega hluti, leggur önnur börn í einelti.

KYNFERÐISLEGT OFBELDI

Önnur tegund ofbeldis er kynferðislegt ofbeldi. Oftast er snerting þægileg … eins og að fá faðmlag frá einhverjum sem þér þykir vænt um. Og stundum er snerting nauðsynleg eins og t.d. þegar maður fer í skoðun hjá lækni. En stundum getur einhver fullorðinn eða jafnvel annað barn viljað gera hluti sem þeir eiga ekki að gera; eins og að kyssa barn á munninn eða þannig að barninu þyki það óþægilegt – snerta hans eða hennar “einka-staði” á líkamanum, eða að láta barnið snerta “einka-staðina” á líka fullorðna einstaklingsins. “Einka-staðir líkamans” eru þeir líkamshlutar sem eru faldir með sundfötum þegar við förum í sund. Barn ætti alltaf að treysta sínum eigin tilfinningum. Líkami manneskju tilheyrir henni einni. Ef barn er snert eða er beðið um að gera eitthvað sem vekur hjá því einhverja ónotakennd – þá ætti hann eða hún að hrópa “NEI” og hlaupa síðan í burtu. Stundum er ekki um neina eiginlega snertingu að ræða heldur gæti fullorðinn einstaklingur látið barn horfa á eitthvað sem er kynferðislegt. Þetta er líka kynferðislegt ofbeldi. Fullorðinn einstaklingur sem er að gera eitthvað sem hann á ekki að gera gæti reynt að fá barn til að lofa því að segja engum frá því sem gerðist. Hann eða hún gæti reynt að blekkja barnið með því að segja að hann eða hún muni skaða fjölskyldu barnsins, vini þess eða gæludýr. Stundum bjóða fullorðnir börnum verðlaun eða peninga til að reyna að sannfæra þau um að það sem gerðist sé þeirra litla leyndarmál. Þetta eru leyndarmál sem maður Á ALDREI AÐ ÞEGJA YFIR. Það er mjög áríðandi að barn segi einhverjum fullorðnum sem það treystir frá eins fljótt og hægt er – og að barnið viti að ofbeldið er ekki honum eða henni að kenna. Ofbeldi og misnotkun eru ALDREI barninu að kenna.

TILFINNINGALEGT OFBELDI (ANDLEG SÁR)

Þriðja tegundin af ofbeldi er tilfinningalegt ofbeldi eða andleg sár. Stundum er erfitt að koma auga á eða skilja þessa tegund ofbeldis. Þó það séu kannski ekki neinir sýnilegir marblettir eða sár þá getur það haft afar neikvæð áhrif á barn. Tilfinningalegt ofbeldi á sér stað þegar foreldri eða sá fullorðni aðili sem ber ábyrgð á barni, segir hræðilega, andstyggilega hluti við barn að ástæðulausu. Eða kannski kennir fullorðni aðilinn barninu um hluti eða lætur honum stöðugt líða illa. Fullorðni aðilinn sýnir kannski barninu enga ást eða umhyggju. Fullorðna einstaklingnum virðist bara ekki þykja neitt vænt um barnið. Tilfinningalegt ofbeldi getur valdið því að barnið verður mjög ósátt við sjálft sig. Barnið fer kannski að trúa því að allir þessir hræðilegu hlutir sem eru sagðir um það séu réttir. Jafnvel þó það séu engin sýnileg sár á líkamanum – þá fylgir þessu mikill sársauki innra með barninu. Barn sem líður mjög illa með sjálft sig – er afar ósátt við sig – ætti að tala um tilfinningar sínar við einhvern fullorðinn sem það treystir.

Sá fullorðni aðili getur verið ættingi, fullorðinn vinur, námsráðgjafi, kennari, skólasálfræðingur eða prestur, svo eitthvað sé nefnt. Öll börn ættu að vera sátt við sig og vera fær um að hugsa á jákvæðan hátt.

VANRÆKSLA

Vanræksla á sér stað þegar þau fá ekki þá nauðsynlegu hluti sem þau þurfa frá þeim fullorðna aðila sem sér um þau; eins og hollan mat, hrein föt, bað og læknisþjónustu. Þetta er líkamleg vanræksla. Stundum fær barn ekki það sem það þarf á halda tilfinningalega; eins og einhvern til að tala við og einhvern sem hefur áhuga á því sem barnið gerir. Stundum hefur barnið engan til að hugsa um sig eða að sá fullorðni aðili sem á að hugsa um það veitir barninu enga athygli. Þegar það gerist þá getur barninu farið að líða afar illa; misst allt sjálfstraust. Oft er litið fram hjá þessari tegund ofbeldis af því að það eru engir sýnilegir marblettir að utanverðu – en það sem býr innra með manneskjum; eins og tilfinningar og jákvæður hugsunarháttur … er alveg jafn mikilvægt.

Í mörgum tilfellum búa börn við fleiri en eina tegund ofbeldis – og þau börn og fjölskyldur þeirra þurfa á hjálp að halda. Þetta er of stórt vandamál til að barn geti ráðið fram úr því eitt síns liðs. Barnið verður að tala um vandamál sín við einhvern fullorðinn sem það treystir. Það kann að vera mjög ógnvekjandi – en fullorðinn einstaklingur sem barnið treystir getur hjálpað mikið.

ORÐALISTI

Ofbeldi: að meiða einhvern viljandi

Viðeigandi hegðun: hegðun sem er ásættanleg

Ráðgjafi: fagaðili sem hlotið hefur menntun til að vinna með börnum og fullorðnum og að aðstoða þau við að skilja tilfinningar sínar og leysa vandamál sín

Opinbera: að segja fá; í þessu tilfelli: þegar barn segir frá því að hann eða hún sé beitt ofbeldi

Tilfinningalegt ofbeldi: slæm framkoma og meðferð á manneskju með ljótum eða niðurlægjandi orðum og móðgunum; að sýna skort á væntumþykju í garð manneskjunnar, að kenna manneskju um og gera lítið úr henni, að sýna ekki ástúð og umhyggju

Neyðarlína: símanúmer hjá aðilum sem geta veitt aðstoð þegar vandamál koma upp; þeir veita foreldrum ráðgjöf eða hjálpa þeim þegar þeir óttast að þeir séu að missa stjórn á skapi sínu

Vanræksla: að veita enga athygli; að veita ekki viðunandi umhyggju og athygli eða að skilja barn eftir eitt í lengri tíma

Barnalæknir: læknir sem hefur sérhæft sig í heilsu og heilbrigði barna

Líkamlegt ofbeldi: að meiða einhvern líkamlega með því að hrista hann kröftuglega, lemja fast, sparka, kýla, ýta harkalega eða að nota áhald eins og kylfu, hníf, logandi sígarettu, heitt straujárn, sjóðandi vatn o.s.frv. til að valda sársauka

Einka-staðir: þeir líkamshlutar fólks sem eru alla jafna huldir sundfötum þegar fólk fer í sund

Sérfræðingur: manneskja sem hlotið hefur menntun eða þjálfun á ákveðnu sviði

Geðlæknir: læknir sem hefur sérhæft sig í að hjálpa fólki sem á við hegðunarvandamál að stríða

Sálfræðingur: sérfræðingur sem talar við fólk til að hjálpa þeim að skilja hugsanir sínar, tilfinningar og hegðun

Kynferðislegt ofbeldi: sú athöfn að gera óviðeigandi hluti með barni þar sem einka-staðir líkamans koma við sögu; s.s. að snerta, láta barnið snerta, að horfa á barnið klæða sig eða afklæða, að láta barnið horfa á kynferðislegar athafnir

Félagsráðgjafi: sérfræðingur sem vinnur með fólki til að hjálpa þeim að leysa vandamál sín

Eftir sýninguna – Hvað nú?

Eftir að nemendurnir hafa tekið þátt í leikbrúðusýningunni – þá geta kennarar gert eitt og annað til að efna til og örva rökræður um líkamlegt ofbeldi.

Notið efnið í þessum kafla til að undirstrika þau atriði sem fjallað var um í sýningu Krakkanna í hverfinu. Þessar æfingar má fjölfalda og dreifa til kennara svo þeir geti rifjað efnið upp og fylgt því eftir með nemendum.

UMRÆÐU-SPURNINGAR

“Opið hús”

1.Hvar eru Númi og Stefán? Af hverju hefur Númi áhyggjur í upphafi leikþáttarins? Hvers vegna er hann undrandi á því hvernig mamma Stefáns lítur út? Af hverju er hann hissa á því að þau haldist í hendur?

2.Hvers vegna er Númi hræddur við mömmu Stefáns? Hvað heldur hann að hafi komið fyrir Stefán?

3.Hvar vill Stefán sitja? Af hverju hikar Númi við að fara með honum?

4.Hvað segir Stefán Núma? Hvernig útskýrir hann þau vandamál sem áttu sér stað milli hans og mömmu hans?

5.Hvað varð þess valdandi að Stefán gerði sér grein fyrir því að það sem var að gerast heima hjá honum var ekki eðlilegt? Hvað olli því að hann ákvað að hann yrði að segja einhverjum frá ofbeldinu?

6.Hverjum sagði Stefán frá þessu? Hvernig kom sú manneskja honum til hjálpar? Hvað sagði hann eða hún við Stefán um það sem hann sagði frá?

7.Hvernig fékk mamma hans Stefáns hjálp? Af hverju þurfti öll fjölskylda Stefáns að fara í meðferð? Á hvers konar fundi fer mamma hans Stefáns?

“Neyðarlínan”

1.Af hverju hringir Númi í Stefán? Að hverju spyr hann? Af hverju verður Stefán pínulítið pirraður út í Núma?

2.Hvað gerðist heima hjá Núma sem veldur því að hann heldur að pabbi hans sé að beita hann ofbeldi? Hvernig útskýrir Stefán að það sem pabbi hans Núma gerði er ekki ofbeldi?

3.Hvað gerði mamma hans Núma sem fékk hann til að halda að hún væri að beita hann ofbeldi? Hvers vegna er Númi alveg ringlaður?

4.Hvað segir Stefán Núma um ofbeldi gagnvart börnum? Hvernig útskýrir hann það?

5.Af hverju segir Stefán Núma að það sé mjög áríðandi að segja einhverjum frá ef maður er beittur ofbeldi? Hvað heldur þú að ofbeldi gagnvart börnum sé?

SKAPANDI LEIKLIST

LEIÐBEININGAR:

1.Skiptið nemendunum í tveggja til fimm manna hópa.

2.Látið hvern hóp fá eina af eftirfarandi þremur aðstæðum.

3.Rökræðið söguna og hugsanlega árekstra og valkosti.

4.Hver hópur á að skipa í hlutverk og semja raunhæfan endi á sinn leikþátt. Segið hópunum að þeir megi bæta við persónum, láta leikþáttinn gerast á fleiri en einum stað (mismunandi sviðsmyndum) og bæta við það efni sem þau fá í hendur. Hvetjið þá til að nota setningar; ekki eins atkvæðis samtöl.

5.Látið nemendurna æfa örleikritin a.m.k. tvisvar sinnum fullbúin með frumsömdum endi. Þeir þurfa ekki að leggja hlutverk sín á minnið. Þau geta lesið textann úr glósum sínum eða úr handritinu.

6.Látið nemendurna sýna örleikrit sín fyrir allan hópinn og ræðið síðan ástæðurnar fyrir því af hverju þau kusu að láta leikþáttunum ljúka á þann hátt sem þau kusu.

Umræður: Eftir að nemendurnir hafa sýnt sína leikþætti, ræðið þá hvað gerðist meðan á sýningum stóð með því að spyrja eftirfarandi spurninga:

1.Hvernig leið þínum “karakter”?

2.Fannst þér gaman að leika þinn “karakter”? Af hverju og af hverju ekki?

3.Fannst þér viðbrögð þíns “karakters” vera raunhæf og sannfærandi? Af hverju og af hverju ekki?

4.Hvernig öðruvísi hefði verið hægt að ljúka leikþáttunum?

Bendið á tengslin milli eigin skoðana og viðhorfa nemendanna og þeirra skoðana sem hafa komið fram. Ítrekið upplýsingarnar um mikilvægi þess að gæta eigin öryggis og að taka skynsamlegar og heilbrigðar ákvarðanir.

Leikþáttur A

Aðstæður:Hópur barna er að tala um auglýsingu sem þau sáu í sjónvarpinu. Nonni og Sara hafa enga hugmynd um að Stefán hafi verið beittur ofbeldi af mömmu sinni, hér áður fyrr.

Persónur:Nonni

Sara

Stefán (sem hefur verið beittur ofbeldi af mömmu sinni)

NONNI:Sáuð þið auglýsinguna í sjónvarpinu í gær? Hún var ótrúlega skrýtin. Þeir sýndu mynd af krakka sem hafði verið barinn í klessu …

SARA:Oh já! Ég sá þetta. Það var alveg hræðilegt að sjá hann.

NONNI:Ég trúi ekki hvað kom fyrir hann.

SARA:Jú, þeir sögðu að pabbi hans … pæliði í því … PABBI hans … hefði barið hann!

NONNI:Bíddu, pabbi hans hlýtur að vera algjört skrímsli.

SARA:Veistu … ég trúi þessu ekki. Ég meina, foreldri getur ekki gert svona við barnið sitt.

NONNI:Hvað heldur þú, Stebbi?

KLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ SÍÐAN FULLBÚINN LEIKÞÁTTINN MEÐ HÓPNUM YKKAR.

Leikþáttur B

AÐSTÆÐUR:Þegar Diljá trúir Jenný fyrir ákveðnum hlutum þarf Jenný að taka mjög erfiðar ákvarðanir.

PERSÓNUR:Jenný

Diljá

JENNÝ:Hæ Diljá, hvað segirðu?

DILJÁ:Bara fínt. Hvað er í gangi?

JENNÝ:Ja, við ætlum að fara nokkur heim til Dodda og busla í heita pottinum sem þau voru að kaupa. Viltu koma með?

DILJÁ:(líður augsýnilega hálf illa) Uhhh … nei,takk … ég held ekki.

JENNÝ:Af hverju ekki? (gengur á eftir henni) Láttu ekki svona … komdu … þetta verður stuð.

DILJÁ:Æ, ég er ekkert hrifinn af vatni.

JENNÝ:Ha?!! Víst ertu hrifin af vatni. Þú fórst þrisvar í sund í síðustu viku.

DILJÁ:Jaaáá. Uhhhh, Jenný … sko ég vil ekki fara af því að ég vil ekki vera í sundbol.

JENNÝ:Bíddu, af hverju ekki. Blái sundbolurinn þinn er geggt flottur.

DILJÁ:Já … en hann er ekki mjög flottur á mér núna. Sko … uhhh … ég er nefnilega með nokkra marbletti á bakinu og ég vil ekki fara í sundbol.

JENNÝ:Bíddu, af hverju ertu marin á bakinu?

DILJÁ:Æ … sko … ég gerði svoldið af mér og pabbi varð brjálaður … svo þess vegna er ég með dáldið marga marbletti. En ekki segja neinum frá þessu … ókey?

KLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ SÍÐAN FULLKLÁRAÐAN LEIKÞÁTTINN MEÐ HÓPNUM YKKAR.

Leikþáttur C

AÐSTÆÐUR:Sammi og Jenni eru bestu vinir. Sammi gistir hjá Jenna og þeir eru að horfa á spólu. Foreldrar Jenna fóru út að borða.

PERSÓNUR:Sammi

Jenni

SAMMI:Hey, Jenni … viltu meira popp?

JENNI:Já, takk. Maður verður að hafa popp þegar maður horfir á spólu.

ÞEIR HEYRA EINHVERN HÁVAÐA FRÁ ÍBÚÐINNI Á EFRI HÆÐINNI. ÞEIR HEYRA EINHVERN FULLORÐINN ÖSKRA OG BARN GRÁTA. SÍÐAN HEYRA ÞEIR HÖGG-HLJÓÐ.

SAMMI:Hvað er þetta?

JENNI:Æ … þetta er fólkið á efri hæðinni. Þau eru alltaf að þessu.

SAMMI:Eru alltaf að hverju?

JENNI:Þau rassskella börnin sín.

SAMMI:Heyrðu, fyrirgefðu … þetta hljómar eins og eitthvað miklu meira en rassskelling! Gera þau þetta oft? Bíddu … og hvað gerir þú? Hvað gera foreldrar þínir?

JENNI:Þeim líður ógeðslega illa yfir þessu. Einu sinni fór pabbi upp til að tala við þau en karlinn sagði honum að þetta kæmi honum ekki við. Hann sagði að þetta væri uppeldismál og hann réði sjálfur hvernig hann refsaði börnunum sínum. Svo ég held að þau viti bara ekkert hvað þau geta gert í þessu.

SAMMI:Við verðum að gera eitthvað, Jenni! Ég meina mér heyrist hann vera að stórslasa barnið!

KLÁRIÐ LEIKÞÁTTINN MEÐ NÁKVÆMUM ENDI. ÆFIÐ SÍÐAN FULLBÚINN LEIKÞÁTTINN MEÐ HÓPNUM YKKAR.

HVAÐ EF …

ÆFING #1

Leiknum sem fer hér á eftir er ætlað að hvetja til umræðna í bekknum um ofbeldi og misnotkun.

Markmið:Nemendur munu eiga auðveldara með að skilja ofbeldi og misnotkun og vera færari um að greina hvenær aðstæður geta talist ofbeldisfullar.

Leikmunir:Pappír sem nota má í skilti

Tússpennar, málning eða vaxlitir.

Framkvæmd:Lýsið ýmsum kringumstæðum og látið nemendurna skera úr um hvort verið sé að beita ofbeldi í viðkomandi aðstæðum. Þið getið valið úr einhverjum neðangreindra dæma eða búið til ykkar eigin. Merkið þrjá veggi kennslustofunnar með skiltum sem búin eru til úr pappírnum; á einu skiltinu stendur “Alltaf”, á öðru skiltinu “Stundum” og því þriðja “Aldrei”. Nemendurnir eiga að hlusta á meðan þú kynnir hverjar kringumstæður fyrir sig. Eftir að þú hefur lokið við að lýsa hverjum aðstæðum fyrir sig eiga nemendurnir að svara með þvi að færa sig að þeim vegg sem merktur er skilti í samræmi við svar þeirra.

NOKKUR SÝNISHORN:

1.Barn teygir sig í heita pönnu sem stendur á eldavélinni og móðir þess slær hönd þess í burtu. Er þetta ofbeldi?

2.Þú ert að spila körfubolta og þú hittir ekki í körfuna … sem verður til þess að þitt lið tapar. Vinir þínir hrópa að þér skammar- og ókvæðisorðum. Er þetta ofbeldi?

3.Faðir barns hrindir því niður stiga. Er þetta ofbeldi?

4.Þú og bróðir þinn eruð í kapphlaupi og hann rekst á þig. Þú dettur og brýtur tönn. Er þetta ofbeldi?

5.Jónas fellur á eðlisfræðiprófi og mamma hans hengir einkunnina upp á ísskápnum þar sem allir geta séð hana. Er þetta ofbeldi?

6.Barn er lamið eftir að hafa brotið uppáhaldsvasa mömmu sinnar. Er þetta ofbeldi?

7.Uppáhaldssjónvarpsþáttur Ásdísar er á skjánum en mamma hennar sendir hana í rúmið. Er þetta ofbeldi?

Umræður: Var erfitt að segja til um hvað var ofbeldi og hvað ekki? Höfðu nemendur mismunandi hugmyndir um ofbeldi? Hverjar voru þær hugmyndir? Fóru niðurstöðurnar stundum eftir einhverjum óþekktum aðstæðum?

ÆFING #2

HVAÐ EF …

Markmið:

Í þessari æfingu er áherslan lögð á persónulegt öryggi.

Börn munu ræða um mismunandi kringumstæður og munu fá tæki til að greina, þekkja og forðast hugsanlega hættulegar aðstæður.

Leikmunir:Listi yfir mismunandi kringumstæður.

Framkvæmd:Lesið upphátt fyrir börnin hverja og eina af eftirfarandi lýsingum á kringumstæðum. Gefið börnunum síðan eina mínútu til að hugsa um það sem þú last fyrir þau. Stjórnaðu síðan umræðum um kringumstæðurnar og láttu börnin svara spurningunum sem fylgja hverjum kringumstæðum fyrir sig.

1.Vinur þinn segir þér frá því að foreldrar hans hafi brennt hann með heitu straujárni af því að hann þreif ekki herbergið sitt. Hann sýnir þér örið – en biður þig um að segja ekki nokkrum manni frá þessu. Hvað gerir þú? Segir þú einhverjum frá þessu? Heldur þú að þú værir að bregðast eða bjarga vini þínum ef þú segðir einhverjum fullorðnum frá? Hvað heldur þú að vinur þinn myndi gera ef þú segðir einhverjum frá þessu?

2.Þú ert að bíða eftir að mamma þín sæki þig á fótboltaæfingu. Meðan þú bíður ekur ókunnur maður upp að þér og spyr þig hvort þú vitir hvar Síðumúli sé. Þú reynir að segja að þú hafir ekki hugmynd um það – en hann segist ekki heyra í þér og biður þig vinsamlegast um að koma nær. Hvað gerir þú? Færir þú þig nær bílnum? Myndir þú færa þig nær bænum aðeins vegna þess að hann er fullorðinn? Af hverju er það slæm hugmynd að fara of nálægt bíl ókunnugra? Ættirðu yfir höfuð að svara honum? Hvað ættirðu að gera ef einhver fullorðinn sem þú þekkir ekki spyr til vegar?

3.Nágranni þinn spyr þig hvort þú sért til í að vinna nokkur létt verk fyrir hann heima hjá honum ef hann borgi þér 1000 krónur fyrir. Hvað segir þú? Eftir hverju fer ákvörðun þín? Nefndu nokkur dæmi um hvernig þú getur tryggt öryggi þitt?

4.Þú og litla systir þín eruð ein heima eftir skóla þar til mamma ykkar kemur heim klukkan 5. Síminn hringir og í símanum er einhver sem spyr eftir mömmu ykkar. Mamma ykkar hefur alltaf sagt ykkur að segja að hún sé upptekin og að þið skulið taka skilaboð til hennar og láta hana hringja til baka. Þú segir þetta en manneskjan segir þér að þetta sé neyðartilvik og að þú verðir að ná í hana eins og skot. Hvað gerir þú? Hvað segir þú? Segirðu manneskjunni að hún sé ekki heima? Af hverju eða af hverju ekki? Fyndist þér óþægilegt að segja fullorðinni manneskju að þú viljir ekki ná í hana en að þú skulir taka skilaboð og láta hana vita?

5.Þú ert úti á róló og kona sem þú þekkir ekki kemur til þín og veit hvað þú heitir. Hún segir þér að það hafi orðið slys, pabbi þinn sé slasaður og að hann hafi sent hana til að ná í þig. Ferðu með henni? Af hverju eða af hverju ekki? Hefur þú einhvern tíman rætt það við þann fullorðna aðila sem ber ábyrgð á þér hvað þú eigir að gera í svona tilfelli? Fyndist þér það snjallt að ræða það við fjölskyldu þína hvað best sé að gera ef svona aðstæður koma upp – og semja neyðaráætlun út frá því? Hvernig gæti fjölskyldan þín útbúið neyðaráætlun sem myndi nýtast ykkur í neyðartilvikum sem þessum?

UMRÆÐUR:

Hvernig fannst þér þessi æfing? Hefur þú einhvern tíman áður rætt um þessa hluti? Voru þessi dæmi um kringumstæður þægileg eða óþægileg? Hvernig gæti þessi æfing hjálpað þér við að bregðast við í raunverulegum kringumstæðum? Viðbrögð við hvaða öðrum aðstæðum heldur þú að það væri mikilvægt að æfa?

ÆFING #3

Markmið:

Markmiðið með þessari æfingu er að leggja áherslu á að það eru fleiri en ein leið til að bregðast við þegar maður er reiður.

Leikmunir:Pappír og blýantur fyrir hvern hóp eða krítartafla og krít

Framkvæmd:Nemendur geta unnið í hópum – en einnig er hægt að nota þessa æfingu til að fá allan bekkinn til að taka þátt í nokkurs konar “hugarflugi” (brainstorming). Undirbúið þá fyrir þessa æfingu með því að útskýra að mamma Stefáns hafi barið hann þegar hún var reið. Biðjið bekkinn um að setja saman lista yfir valkosti fyrir mömmu Stefáns. Hvað gæti hún gert í staðinn þegar hún reiðist? Skráið tillögurnar á töfluna eða pappírinn eða látið hópana skiptast á valkostum sem þeim hafa dottið í hug.

ÆFING #4

BRÉFASKRIFTIR

Hér á eftir fara nokkrar hugmyndir sem hægt er að nota í verkefni sem ganga út á bréfaskriftir.

1.Skrifaðu Stefáni bréf og segðu honum hvernig þér leið þegar hann var að tala um að mamma hans beitti hann ofbeldi.

2.Ímyndaðu þér að þú sért Stefán. Skrifaðu Sigrúnu kennara þínum bréf þar sem þú segir henni hvernig þér líður yfir því að mamma þín beitt þig ofbeldi. Reyndu síðan að þykjast vera Sigrún og svaraðu bréfinu hans Stefáns. Leggðu þig fram um að setja þig í spor beggja aðila.

3.Ímyndaðu þér að þú sért að skrifa bréf til vinar þíns sem býr við ofbeldi. Hvað myndir þú segja við hann/hana? Hvaða ráð myndir þú gefa honum?

4.Skrifaðu bréf til mömmu hans Stefáns og komdu með a.m.k. þrjár uppástungur um hvað hún geti gert þegar hún reiðist – annað en að berja Stefán.

5.Skrifaðu mömmu hans Stefáns bréf og segðu henni hversu stórkostlegt það er að hún skuli vera að þiggja hjálp frá ráðgjafanum og félagsþjónustunni.