Siðareglur Blátt áfram

Siðareglur þessar gilda um alla starfsemi, starfsmenn og stjórn Blátt áfram og þá verktaka eða sjálfboðaliða sem ráðnir eru til samtakanna. Reglunum er ætlað að leiðbeina okkur við framkvæmd daglegra starfa með hagsmuni samtakanna, skjólstæðinga og viðskiptavini að leiðarljósi. Reglunum er jafnframt ætlað að viðhalda og styrkja orðspor og trúverðugleika Blátt áfram – Verndara barna.

Frumskylda Fulltrúar Blátt áfram sinna störfum sínum af fagmennsku og kostgæfni og sýna öðrum virðingu í framkomu, ræðu og riti.

Jafnræði Fulltrúar Blátt áfram gæta þess að mismuna ekki hver öðrum né þeim sem leita til þeirra t.d. vegna kyns, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, þjóðernis, trúarbragða eða skoðana.

Trúnaður Fulltrúar Blátt áfram gæta trúnaðar við skjólstæðinga sína. Þeir gæta þess að persónuupplýsingar séu aðeins notaðar á faglegan hátt og að aðgengi að slíkum upplýsingum takmarkist af því og séu í samræmi við lög um persónuvernd.

Áreiðanleiki Fulltrúar Blátt áfram gæta þess að upplýsingar sem þeir veita séu réttar og eins nákvæmar og kostur er.

Fagmennska og fræðsla Fulltrúar Blátt áfram sem taka þátt í opinberri umræðu eða sinna félags- og stjórnmálum gera það samkvæmt eigin sannfæringu.

Samstaða, samstarf og viðurkenning Fulltrúar Blátt áfram viðurkenna frelsi samstarfsaðila til rannsókna og tjáningar á sannfæringu sinni og viðurkenna einnig framlag hvers annars.  Blátt áfram viðurkennir ólík sjónarmið stofnana og annarra félagasamtaka til málaflokksins.

Hollusta Fulltrúar Blátt áfram leitast við að skaða ekki orðstír félagsins.

Persónuleg ábyrgð Fulltrúar Blátt áfram birta eigin skrif í fjölmiðla í eigin nafni.  Enginn getur látið uppi álit Blátt áfram án samráðs og samþykkis stjórnar.

Vandvirkni og heilindi Fulltrúar Blátt áfram eru gagnrýnir á sjálfa sig og sýna ekki dómhörku. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu.

Heiðarleiki Fulltrúar Blátt áfram setja ekki fram hugverk annarra sem sín eigin.